Innlent

Jörð skelfur á Reykjanesi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Margur landsmaðurinn hefur ekið Suðurstrandarveginn á árinu til að skoða eldgosið í Geldingadölum.
Margur landsmaðurinn hefur ekið Suðurstrandarveginn á árinu til að skoða eldgosið í Geldingadölum. Vísir/Vilhelm

Jarðskjálfti af stærðinni 4,8 varð 2,5 kílómetra norðaustan af Grindavík klukkan 21:38 í kvöld. Skjálftinn varð á fimm kílómetra dýpi en hann er sá næststærsti sem hefur orðið í yfirstandandi skjálftahrinu sem hófst á þriðjudaginn.

Skjálfti upp á 4,7 varð upp úr klukkan þrjú í dag sem var sá stærsti í hrinunni þar til nú í kvöld. Fjórir af stærð fjórir eða meira hafa orðið á svæðinu síðan þá og nú í kvöld. Skjálfti upp á 4,9 varð á miðvikudaginn.

Bjarki Kaldalóns Friis, vakthafandi náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við fréttastofu í dag að skjálftahrinan virtist vera söm við sig.

Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa talið líklegast að verði annað gos að kvikan komi upp á sama stað og gaus stóran hluta ársins. Ekki megi þó útiloka að hún komi upp annars staðar og hefur fólk verið varað við því að vera á ferð um svæðið.

Stærstu skjálftarnir í kvöld voru fyrrnefndur skjálfti upp á 4,8 klukkan 21:38 og svo annar upp á 4,4 strax í kjölfarið, eftirskjálfti. Stuttu seinna, klukkan  21:43, varð svo skjálfti af stærðinni 4,1.

Þessir skjálftar voru norðan Grindavíkur og eru því svokallaðir gikkskjálftar - þeir verða þegar þrýstingur vegna kvikusöfnunar skapar spennu á öðrum stöðum í jarðskorpunni, í þessu tilfelli vestan við kvikusöfnunina. Engin merki eru um gosóróa að sögn náttúruvársérfræðings Veðurstofu Íslands.

Uppfært klukkan 00:16

Í fyrri útgáfu sagði að skjálftinn upp á 4,8 væri sá stærsti í hrinunni til þessa. Hið rétta er að hann er sá næststærsti.


Tengdar fréttir

Jarð­skjálfti af stærðinni 4,7 mældist á Reykja­nes­skaga

Snarpur skjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu klukkan 15.03 í dag og samkvæmt mælingum Veðurstofunnar var hann 4,7 að stærð. Skjálftinn er sá stærsti frá upphafi nýlegrar jarðskjálftahrinu í Fagradagsfalli en hún hófst á þriðjudaginn síðastliðinn. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×