Innlent

Fangar fengu kar­töflu í skóinn

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Kartafla í hverjum einasta skó á Hrauninu í morgun.
Kartafla í hverjum einasta skó á Hrauninu í morgun. facebook/afstaða

Fangar á Litla-Hrauni urðu „undrandi og ör­lítið miður sín“ í morgun þegar þeir kíktu í skó sína sem þeir höfðu komið fyrir fyrir utan klefa sína í von um að fá gjöf frá jóla­sveininum. Við þeim öllum blasti nefni­lega kar­tafla, þrátt fyrir full­yrðingar Af­stöðu, fé­lags fanga um góða hegðun þeirra í mánuðinum.

Jóla­sveinninn sem ber á­byrgð á þessari köldu kveðju til fanga er Skyr­gámur sem kom til byggða í morgun.

Sagt er frá þessu skemmti­lega at­viki á Face­book-síðu Af­stöðu. „Fá­títt hefur verið á um­liðnum árum að jóla­sveinarnir láti á sér kræla innan fangelsis­veggja hér á landi og kom það því vist­mönnum í fangelsinu á Hólms­heiði skemmti­lega á ó­vart þegar þeir vöknuðu á dögunum og sáu að búið var að lauma sæl­gæti í skó þeirra,“ segir í færslunni.

Vist­menn Litla-Hrauns ætluðu þá að leika leikinn eftir í von um að fá sæl­gæti frá jóla­sveininum en urðu fyrir von­brigðum þegar þeir komu að tómum skó í gær og enn meiri von­brigðum með kar­töfluna í morgun.

Þeir höfðu enda sýnt af sér fyrir­myndar­hegðun í desember, að sögn Af­stöðu.

„Full­trúar frá Af­stöðu fóru í dag á Litla-Hraun til að taka stöðuna, lægja öldur og ganga úr skugga um að þar hefðu allir hegðað sér vel. Það er mál manna að jóla­sveinninn muni ekki hrekkja vist­menn á Litla-Hrauni að nýju og mega þeir búast við sæl­gæti í skóinn á næstunni, rétt eins og vist­menn á Hólms­heiði,“ segir í færslunni.

„Annars var góð stemning á Hrauninu í dag og jóla­undir­búningurinn í fullum gangi, það má því ekki gera ráð fyrir öðru en allir muni hegða sér þar vel, alla vega fram að jólum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×