Innlent

Skynsamlegast að aflétta aðgerðum, ella styðja við veitingamenn

Snorri Másson skrifar
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, segir hið raunverulega neyðarástand í samfélaginu vera inni á Landspítala.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, segir hið raunverulega neyðarástand í samfélaginu vera inni á Landspítala. vísir/vilhelm

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins telur ótækt að veitingamenn beri kostnaðinn af því að neyðarástand ríki á Landspítala, eins og hann orðar það. Hann hvetur stjórnvöld til að koma til móts við greinina með stuðningsaðgerðum.

„Ég held að það verði annaðhvort að ganga í það verk að aflétta öllum takmörkunum eða þá að bæta þeim rekstraraðilum það, sem eru að verða fyrir skaða af þessum völdum þessa mánuðina. Þegar hið eiginlega neyðarástand í samfélaginu er staðan á Landspítala er ekki sanngjarnt að rekstraraðilar veitingahúsa beri skaðann af því,“ sagði Bergþór í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Bergþór segir að með þessum yfirlýsingum sé Miðflokkurinn ekki nauðsynlega að taka sér stöðu þeirra sem mótmæli sóttvarnaraðgerðum, nú þegar Brynjar Níelsson og Sigríður Andersen sjálfstæðismenn eru horfin af þingi.

„Við erum í sjálfu sér ekki að mótmæla sóttvarnaraðgerðum að öðru leyti en því að þær verða að vera til samræmis við það ástand sem er uppi í samfélaginu. Okkur þykir það ekki vera uppi núna eins og var kannski fyrir tæpum tveimur árum síðan þegar óvissan var meiri og þjóðin óbólusett,“ segir Bergþór.

Á Alþingi í gær vakti Bergþór máls á stöðunni í veitingageiranum.

„Þegar stjórnvöld ganga fram með þeim íþyngjandi aðgerðum sem reglulega hafa verið keyrðar yfir þennan markað síðustu tvö árin þá kemur til af því verulegur kostnaður og starfsskilyrði og öryggi starfsmanna þessara fyrirtækja eru í algjöru uppnámi. Ég held að skynsamlegast væri að við fikrum okkur í þá átt að hætta þessum aðgerðum sem við höfum verið undirorpin nú í hartnær tvö ár. Í öllu falli, á meðan stjórnvöld eru ekki tilbúin til að hætta þessum aðgerðum, verður að koma til móts við þá aðila sem standa í þessum rekstri,“ sagði Bergþór.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×