Innlent

Sakna milljarðs sem hafi komið í veg fyrir ham­farir á hjúkrunar­heimilum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Samband íslenskra sveitarfélaga óttast að óbreytt fjárlagafrumvarp boði niðurskurð í rekstri hjúkrunarheimila.
Samband íslenskra sveitarfélaga óttast að óbreytt fjárlagafrumvarp boði niðurskurð í rekstri hjúkrunarheimila. Vísir/Vilhelm

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga telja ljóst að verði fjárlagafrumvarp næsta árs samþykkt óbreytt með tilliti til framlaga til hjúkrunarheimila stefni í niðurskurð í rekstri hjúkrunarheimila.

Samtökin tvö eru afar gagnrýnin á þau framlög sem eyrnamerkt eru hjúkrunarheimilum í fjárlagafrumvarpi næsta árs í umsögnum um fjárlagafrumvarpið.

Milljarðurinn hafi komið í veg fyrir hamfarir í ár

Í umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu er bent á að ekki sé gert ráð fyrir sambærilegri eins miljarðs viðbót við rekstrargrunn hjúkrunarheimila sem kom til framkvæmda í ár.

„Þessi innspýting í rekstur hjúkrunarheimila árið 2021 kom í veg fyrir hamfarir í rekstri þeirra, niðurskurð á þjónustu og starfsmannahaldi,“ segir í umsögninni.

Segir þar að mikilvægt sé að þessum fjármunum verði bætt við í fjárlögin. Ella þurfi að skera niður þjónustu við íbúa hjúkrunarheimila.

Kallað er eftir stórvægilegum lagfæringum á fjárlagafrumvarpinu í umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.Vísir/Vilhelm

„Ef ekki verða gerðar stórvægilegar lagfæringar á fjárlagafrumvarpinu og fjárframlög til hjúkrunarheimila hækkuð á milli umræðna þá eru óhjákvæmilegar afleiðingar af því enn frekari niðurskurður í rekstri hjúkrunarheimilanna og þar með enn meiri skerðing á þjónustu til íbúa.“

Er að auki bent á óbreytt fjárlög geti gert það að verkum að ýmis sveitarfélög aðrir og rekstraraðilar geti ekki lengur staðið undir rekstri hjúkrunarheimila neyðist til að skila honum til ríkisins.

Fjárlögin endurspegli ekki loforð í stjórnarsáttmála

Umsögn Samband íslenskra sveitarfélaga er á svipuðum nótum þegar kemur að framlagi til hjúkrunarheimila í fjárlagafrumvarpinu.

„Það eru mikil vonbrigði að fjárlagafrumvarpið endurspegli hvorki gefin loforð um fjármögnun hjúkrunarheimila né nýjan stjórnarsáttmála en þar segir að þróa verði heilbrigðiskerfið í takt við breytta samsetningu þjóðarinnar, mönnunarþörf og lífsstílssjúkdóma.“

Hjúkrunarheimilið Hlíð á AkureyriVísir/Tryggvi

Er bent á að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir tveggja milljarða hækkun til hjúkrunarheimila nægi það ekki, þar sem verulega virðist skorið niður á móti.

Boði stórfelldan niðurskurð

Þar beri helst að nefna að umræddur milljarður  sem hafi afstýrt neyðarástandi á hjúkrunarheimilinum í sumar sé ekki að finna á fjárlögum næsta árs auk þess sem að ekki virðist gert ráð fyrir kostnaði hjúkrunarheimila við styttingu vinnuvikunnar.

Þá sé ekki tekið nægjanlegt tillit til aukinnar hjúkrunarþyngdar, útlagakostnaðar eða verðlags-og launahækkana.

„Reynist ofangreint rétt þá boðar fjárlagafrumvarp 2022 í raun stórfelldan niðurskurð á rekstri og þjónustu hjúkrunarheimila landsins.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×