Innlent

Þórólfur gefur grænt ljós á bólusetningu barna fimm til ellefu ára

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Fanndís Birna Logadóttir skrifa
Börn á aldrinum tólf til fimmtán ára voru bólusett í ágúst. 
Börn á aldrinum tólf til fimmtán ára voru bólusett í ágúst.  Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir hefur gefið grænt ljós á bólusetningar barna á aldrinum fimm til ellefu ára og stendur til að hópurinn verði bólusettur eftir áramót. Framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að um sé að ræða stórt verkefni. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur ákveðið að börnum á aldrinum fimm til ellefu ára verði boðin bólusetning eftir áramót en þetta staðfestir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við fréttastofu.

Morgunblaðið greindi fyrst frá en Þórólfur sagði í samtali við mbl.is að bólusetningar hópsins færu líklega fram aðra vikuna í janúar. Þá sé von á tilkynningu um málið síðar í dag, þar á meðal varðandi framkvæmd bólusetninga.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir stóra verkefnið fram undan vera bólusetningar barna.

„Það verður mjög stórt og flókið verkefni og allur kraftur fer í það og það verður ekki í Laugardalshöllinni heldur verður það hugsanlega í skólunum,“ segir Ragnheiður.

Óvíst hvort bólusett verði í Laugardalshöll eftir áramót

Framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Laugardalshöll eftir áramót en þá stendur meðal annars til að skipta um gólf og ljósabúnað.

„Við erum í góðu samstarfi við staðarhaldara í Laugardalshöll og við verðum þar fram að áramótum og munum nota anddyrið, því við erum ekki að boða neina stóra hópa núna heldur er þetta svona hugsað sem björgunarleið fyrir þá sem eru kannski að koma til landsins, námsmenn og aðrir, sem eru að koma yfir hátíðarnar og óska eftir bólusetningu. En það er ekki boðaðir neinir stórir hópar núna,“ segir Ragnheiður.

Fyrirsjáanleikinn í faraldrinum hafi hins vegar verið afar takmarkaður og því hafi aldrei verið gerður langtímasamningur við Laugardalshöll.

„Síðan erum við ekkert farin að sjá neitt lengra eftir áramót hvað verður eða hvar við verðum. Það liggja fyrir að það verða einhverjar framkvæmdir í Laugardalshöllinni og við vorum ekkert með tímasetninguna á þeim en við vonum það besta,“ segir Ragnheiður.

„Ef þær verða ekki hafnar þá munum við vera þar áfram, annars munum við finna okkur nýtt húsnæði.“


Tengdar fréttir

Þrettán þúsund börn í sóttkví á þremur mánuðum

Þrettán þúsund börn hafa þurft að fara í sóttkví vegna kórónuveirufaraldursins á síðustu þremur mánuðum. Heilbrigðisráðherra segir sóttkví gríðarlega frelsisskerðingu fyrir börnin og er mögulega tilbúinn að skoða aðrar leiðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×