Erlent

Bjargaði líki úr bíl við brún Níagarafossa

Samúel Karl Ólason skrifar
Derrian Duryea tókst að ná líki konunnar úr bílnum við gífurlega erfiðar aðstæður. Skammt frá brún fossiins, eins og sjá má á þessari mynd.
Derrian Duryea tókst að ná líki konunnar úr bílnum við gífurlega erfiðar aðstæður. Skammt frá brún fossiins, eins og sjá má á þessari mynd. AP/Jeffrey T. Barnes.

Áhöfn þyrlu Strandgæslu Bandaríkjanna tókst í gær að ná konu úr bíl sem lenti út í á og var nærri því farinn fram af Níagarafossum. Konan lifði atvikið ekki af en skyggni var mjög lítið og mjög kalt í veðri. Aðstæður voru mjög erfiðar.

AP fréttaveitan segir ekki ljóst hvernig bíll konunnar, sem var á sjötugsaldri, endaði í ánni fyrir ofan fossana en mikil hálka var á svæðinu. Níagarafossarnir eru vinsælir ferðamannastaður og var margmenni á svæðinu en myndir og myndbönd af björgunartilraunum voru í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Ekki var í boði að synda í átt að bílnum vegna staðsetningar hans og straums fyrir ofan fossinn. Björgunaraðilar notuðu dróna til að kanna hvort einhver væri í bílnum og þegar svo reyndist var þyrla Strandgæslu Bandaríkjanna kölluð til.

Derrian Duryea seig niður að bílnum á meðan flugmaðurinn Chris Monacelli og vélstjórinn Jon Finnerty fylgdust með ísingu sem myndaðist fljótt á þyrlunni yfir fossinum.

Í samtali við AP segir Duryea að hann hafi óttast að þurfa að brjóta rúðu í farþegahurð bílsins en hún hafi reynst ólæst. Honum tókst að opna hurðina, þrátt fyrir sterkan straum og komast í bílinn. Tveimur mínútum síðar gaf hann merki um að það þyrfti að hífa hann upp aftur.

Eins og áður segir, þá var konan látin. Hún bjó á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×