Innlent

Kostnaður vegna heimilislausra tvöfaldast frá 2019

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Heiða Björg Hilmisdóttir formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna heimilislausra hefur tvöfaldast frá árinu 2019. Ákveðið hefur verið að bæta við styrkjum til Konukots þannig að heimilið þurfi ekki að reiða sig á sjálfboðaliða.

Húsnæðisúrræði á vegum borgarinnar hafa tvöfaldast frá árinu 2019 og eru nú alls 99 talsins. Það sama á við um kostnað vegna aðgerða í málefnum heimilislausra. Hann var um 730 milljónir 2019 en er áætlaður á þessu ári vera um einn komma fjórir milljarðar króna. Þetta kemur fram í stöðumati Velferðarráðs Reykjavíkurborgar. 

Þar kemur líka fram að frá árinu 2017 hefur heimilislausum í Reykjavík fækkað um 14%. Af þeim nýta flestir sér heimilisúrræði borgarinnar en þrjú prósent heimilislausra býr á víðavangi. Árið 2017 bjuggu 76 einstaklingar á víðavangi.

Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar segir að vel hafi gengið í málaflokknum

„Nú hefur verið ákveðið að greina enn frekar stöðu heimilislausra í borginni.  Við sjáum að þeim fækkar sem betur fer og meira en helmingur er í húsnæði. Við þurfum hins vegar að skoða núna hvar neyðin er sárust,“ segir Heiða. 

Heiða segir að auka eigi fjárstuðning um 29 milljónir króna við Rótina sem sér um Konukot, sem er neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur. Þetta þýði að hætt verði að reiða sig á framlag sjálfboðaliða. Áætlað er að kostnaður borgarinnar vegna Konukots árið 2022 verði 122,5 milljónir króna en hann var 93,6 milljónir. Hækkunin nemur styrkupphæðinni.

„Núna erum við að bæta aðeins í samninginn þannig að þær geta veitt enn betri þjónustu til þeirra kvenna sem sækja þangað. Síðan erum við með ýmsar styrkumsóknir sem við erum að afgreiða núna sem eru t.d.  frá Samhjálp, Rauða krossinum, Kirkjunni þá þessir sem eru að mæta þessum félagslegu þörfum og virkni þessa hóps og fleiri,“ segir Heiða. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×