Innlent

Kosið verði um sam­einingu Akra­hrepps og Skaga­fjarðar í febrúar

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Sauðárkróki.
Frá Sauðárkróki. Vísir/Jóhann K.

Samstarfsnefnd sem sveitarstjórnir Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar skipuðu til að kanna kosti og galla sameiningar sveitarfélaganna hefur skilað áliti sínu, þar sem hvatt er til sameiningar.

Í tilkynningu segir að sveitarstjórnirnar funi fjalla um álitið á tveimur fundum og í kjölfarið boða til kosninga sem fara fram þann 19. febrúar.

„Nefndin hvetur íbúa til að samþykkja tillögu um sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar, en það er álit nefndarinnar að sameining Skagfirðinga í eitt sveitarfélag hafi fleiri kosti en galla.

Sameiningu sveitarfélaganna fylgja áskoranir sem nefndin telur að hægt sé að mæta með útfærslu stjórnskipulags þar sem íbúar fái meiri tækifæri til beinnar þátttöku í ákvarðanatöku.

Að mati nefndarinnar mun sameining sveitarfélaganna hafa í för með sér aukna fjárfestingagetu og stuðla að hraðari uppbyggingu í Varmahlíð. Sveitarfélag allra Skagfirðinga muni hafa sterkari rödd við að koma hagsmunum íbúa og atvinnulífs í Skagafirði á framfæri við stjórnvöld. Öflugt sveitarfélag með einfalda og skilvirka stjórnsýslu, sem leitar eftir sjónarmiðum íbúa með skipulögðum hætti getur bætt búsetuskilyrði og veitt framúrskarandi þjónustu til framtíðar.

Íbúar eru hvattir til þess til að kynna sér málin inn á skagfirdingar.is og fylgjast með kynningarferlinu sem hefst í janúar. Enn er hægt að senda fyrirspurnir og ábendingar til nefndarinnar í gegnum vefinn og finna svör við þeim spurningum sem hafa borist,“ segir í tilkynningunni.

Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að íbúafjöldi í Akrahreppi hafi verið 210 í ársbyrjun, en 4.084 í Sveitarfélaginu Skagafirði. Stærstu byggðakjarnar í Skagafirði eru Sauðárkrókur, Hofsós, Varmahlíð og Hólar í Hjaltadal.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.