Innlent

Allt til­tækt lið sent í út­kall sem reyndist ó­þarft

Árni Sæberg skrifar
Slökkviliðsmenn þurftu ekki að grípa í slöngurnar að þessu sinni.
Slökkviliðsmenn þurftu ekki að grípa í slöngurnar að þessu sinni. Vísir/Vilhelm

Allt tiltækt lið Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, fjórir dælubílar, tveir körfubílar og tveir sjúkrabílar, var sent á Seltjarnarnes á þriðja tímanum í dag vegna tilkynningar um reyk. Þegar á staðinn var komið varð ljóst að ekki væri um neinn eld að ræða.

Starfsmaður slökkviliðsins segir það vera verklag slökkviliðsins að senda strax út allt tiltækt lið þegar tilkynning berst um reyk. 

Fyrstu viðbragðasaðilar sem komu á staðinn voru sjúkraflutningamenn. Þeir sáu strax að engin hætta var á ferð heldur væri um reyk úr kyndingartæki í sprautuklefa á bílaverkstæði að ræða. Öðrum viðbragðsaðilum var þá snúið við.

Einum dælubílnum hafði reyndar þegar verið snúið við enda var hans þarnast í annað útkall. Tilkynnt var um reyk í bifreið á Smiðjuvegi í Kópavogi. Að sögn starfsmanns slökkviliðsins var þar um að ræða hefðbundinn reyk sem myndast þegar bifreiðar eru settar í gang.

„Þannig að þetta voru eiginlega tvö platútköll í röð,“ segir hann.

Starfsmaðurinn segir ekki óalgengt að Neyðarlínunni berist tilkynningar frá fólki sem stoppar ekki þar sem það telur hættutilvik vera að gerast. Upplýsingar séu því oft daprar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×