Innlent

Einungis þrettán þing­menn fá ekki á­lags­greiðslur

Árni Sæberg skrifar
Af fyrsta þingfundi 152. löggjafarþings.
Af fyrsta þingfundi 152. löggjafarþings. Vísir/Vilhelm

Áttatíu prósent kjörinna þingmanna fá álagsgreiðslur ofan á þingfararkaup sitt, sem er þegar 1.285 krónur. Allir þingmenn tveggja flokka fá álagsgreiðslur.

Í frétt Rúv segir að fimmtíu af þeim 63 sem kjörnir voru á Alþingi fá fastar greiðslur ofan á grunnþingfararkaup. Ráðherrar fá 850 þúsund króna álag fyrir ráðherrastarfið en forsætisráðherra fær 1,1 milljón króna. Þá nýtur forseti Alþingis sömu kjara og ráðherra.

Varaforsetar Alþingis, sex talsins, fá fimmtán prósenta álagsgreiðsu, óháð því hvort þeir stýri þingfundum.

Þá fá formenn þingnefnda og þingflokka sama álag og varaformenn nafnda fá tíu prósent ofan á grunnþingfararkaup. Loks eru það formenn flokka, utan þeirra sem stýra ráðuneyti, sem fá fimmtíu prósent álagsgreiðslu.

Þar sem þingmenn Miðflokksins eru aðeins tveir fá þeir báðir álagsgreiðslur. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fimmtíu prósent fyrir að vera formaður flokksins og Bergþór Ólason fimmtán prósent fyrir að vera þingflokksformaður.

Allir þingmenn Vinstri grænna njóta njóta álagsgreiðslna. Þeir eru ýmist ráðherrar, nefndaformenn, varaforseti Alþingis eða þingflokksformaður.

Auk fastra álagsgreiðslna ofan á grunnþingfararkaup fá flesti þingmenn einnig greiðslur vegna ferðakostnaðar, vegna húsnæðis- og dvalarkostnaðar, séu þeir kosnir fyrir kjördæmi utan höfuðborgarsvæðisins, og fasts starfskostnaðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×