Þingmenn stjórnarandstöðunnar reikna með að ríkisstjórnin eigi eftir að koma fram með fjölmargar breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram með skömmum fyrirvara í vikunni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir frumvarpið bera það með sér hvað það væri lagt fram með skömmum fyrirvara.

„Enda heyrir maður núna aðeins frá stjórnarliðum að þeir séu byrjaðir að velta fyrir sér að það þurfi að gera talsverðar breytingar á fjárlagafrumvarpinu í nefndinni. Frumvarpi sem er nýbúið að leggja fram,“ sagði Sigmundur Davíð.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar vitnaði í Bjarna Beneditksson fjármálaráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu.

„Það sem hæstvirtur fjármálaráðherra boðaði hér þegar hann lagði fram þetta frumvarp. Að væntanlegar væru töluverðar breytingar. Ég skildi hann með þeim hætti að hann væri hér að leggja fram kannski í besta falli eitthvað sem hægt væri að kalla drög að fjárlagafrumvarpi,“ sagði Þorbjörg Sigríður og velti fyrir sér áhrif þess á afgreiðslu þingsins.
Sigmundur Davíð sagði þetta vera kerfisfrumvarp og laust við alla pólitík.
„Ef ríkisstjórnin ætlaði að standa við fyrirheitið úr síðasta stjórnarsáttmála um eflingu Alþingis, ég sé að þau endurtóku ekki þann brandara í nýja sáttmálanum; en ef hún hefði ætlað að gera það og leyfa þinginu að hafa raunveruleg áhrif á fjárlögin, þá væri þetta kannski jákvætt. En því miður munum við líklega horfa upp á það að ríkisstjórnin mun einfaldlega vilja nýta tímann til að gera áframhaldandi breytinigar fyrir sjálfa sig og fyrir ráðherra stjórnarinnar,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.