RÚV greindi fyrst frá en samkvæmt heimildum fréttastofu flaug Aron Einar frá Katar, hvar hann spilar knattspyrnu og býr með fjölskyldu sinni, til að gefa skýrslu. Var það að kröfu lögreglu sem hann kom til landsins en lögregla samþykkti ekki að skýrsla yrði tekin í gegnum fjarfundarbúnað.
Aron Einar og Eggert Gunnþór stigu fram í október í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar og þvertóku fyrir að hafa gert nokkuð af sér. Aron Einar sagðist aldrei hafa beitt ofbeldi og Eggert Gunnþór sagðist fullkomlega saklaus af því sem hann hefur verið sakaður um.
Þrítug kona birti færslu á Instagram í maí þar sem hún sagði tvo ónefnda þjóðþekkta einstaklinga hafa nauðgað henni í útlöndum árið 2010. Síðan þá hefur komið í ljós að meint brot átti sér stað að loknum landsleik við Danmörku í Kaupmannahöfn.
Aron Einar sagðist í yfirlýsingu sinni í september, þar sem hann var ósáttur við að hafa ekki verið valinn í landsliðið vegna málsins, ætla að óska eftir því að fá að gefa skýrslu hjá lögreglu vegna málsins. Eggert Gunnþór sagði í yfirlýsingu sinni á föstudag að hann hefði þann 1. október óskað eftir því að fá að gera það sama.
Kynferðisbrotadeild lögreglu hefur sagst ekki munu tjá sig um málið meðan rannsókn þess er í gangi.
Uppfært klukkan 14:24 með yfirlýsingu Einars Odds Sigurðssonar, lögmanns Arons Einars, fyrir hönd þeirra beggja
Í dag hafa birst í fjölmiðlum umfjallanir um að skýrslutökur hafi farið fram vegna rannsóknar lögreglu á máli Arons Einars Gunnarssonar og Eggerts Gunnþórs Jónssonar. Ég hef ekki haft tök á að svara símtölum sem ég gef mér að tengjast umfjölluninni en vil, ásamt Unnsteini Elvarssyni lögmanni Eggerts, koma á framfæri eftirfarandi yfirlýsingu/athugasemd fyrir hönd þeirra beggja.
Skjólstæðingar okkar hafa þegar lýst yfir sakleysi sínu og hafa nú loksins fengið að segja formlega frá sinni hlið í skýrslutöku hjá lögreglu eins og þeir óskuðu eftir. Þeir hafna því með öllu að hafa brotið af sér og reikna með að málið verði fellt niður. Afstaða þeirra er því alveg óbreytt. Að öðru leyti vísast til fyrri yfirlýsinga þeirra en þeir munu ekki tjá sig frekar um málið að sinni.