Fótbolti

Ótrúlegur tuttugu marka sigur Englendinga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ellen White fagnaði vel og innilega þegar hún bætti markamet enska landsliðsins í kvöld.
Ellen White fagnaði vel og innilega þegar hún bætti markamet enska landsliðsins í kvöld. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Enska kvennalandsliðið í fótbolta fór ansi illa með það lettneska er liðin mættust í undankeppni HM 2023 í kvöld, en loktölur urðu 20-0.

Það var fljótt nokkuð augljóst í hvað stefndi, en eftir 23 mínútna leik var staðan orðin 6-0, Englendingum í vil og þar af hafði Beth Mead skorað þrennu.

Ensku stelpurnar bættu svo tveimur mörku við undir lok fyrri hálfleiksins og staðan var því 8-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Englendingar voru svo ekki á þeim buxunum að fara að slaka eitthvað á eftir hlé, en liðið skoraði 12 mörk í seinni hálfleiknum og vann að lokum vægast sagt öruggan sigur, 20-0.

Alls skoruðu fjórir leikmenn enska liðsins þrennu, en þar var markahæst Lauren Hemp með fjögur mörk. Beth Mead, Alessia Russo og Ellen White skoruðu þrjú mörk hver, en Ellen White er nú markahæsti leikmaður enska kvennalandsliðsins frá upphafi með 48 mörk.

Þá skoraði Bethany England tvö mörk og Ella Toone, Georgia Stanway, Jess Carter, Jordan Nobbs og Jill Scott skoruðu allar eitt mark.

Englendingar sitja örugglega á toppi D-riðils með fullt hús stiga eftir sex leiki, en liðið hefur skorað 53 mörk og ekki fengið á sig eitt einasta. Lettland situr hins vegar sem fastast á botninum án stiga.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.