Innlent

Á­ætla að á­­­fengis- og tóbaks­­­­­gjöld verði hærri en fjár­­­magns­­­­­tekju­skattur í ár

Eiður Þór Árnason skrifar
Meira hefur selst af áfengi innanlands.
Meira hefur selst af áfengi innanlands. Vísir/Vilhelm

Tekjur af áfengisgjaldi hafa aukist mikið milli ára og skýrist meðal annars af aukinni einkaneyslu og samdrætti í ferðalögum Íslendinga erlendis. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður fái hærri tekjur af áfengis- og tóbaksgjaldi í ár en af fjármagnstekjuskatti. 

Ríkisstjórnin hyggst hækka áfengis- og tóbaksgjald um 2,5% eftir áramót. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár.

Áfengi sem Íslendingar geta keypt í fríhöfnum ber einungis 10% áfengisgjald og aukast því tekjur ríkissjóðs ef áfengi er keypt innanlands þó magnið sé það sama.

Minni ferðalög Íslendinga erlendis gætu einnig skýrt aukna sölu á áfengi en met voru slegin í áfengissölu í Vínbúðinni í júlí og ágúst síðastliðnum.

Tæplega sextán prósenta aukning

Í fjárlögum fyrir árið 2021 var gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af áfengisgjaldi yrðu 20,25 milljarðar króna á árinu. Nú er áætlað að tekjur af gjaldinu muni nema 23,40 milljörðum króna sem samsvarar um 15,56% aukningu. 

Tekjur af tóbaksgjaldi hafa verið minni en gert var ráð fyrir við gerð síðustu fjárlaga. Eru áætlaðar tekjur nú 5,85 milljarðar árið 2021 í stað 6,05 milljarða. 

Samanlagt er áætlað að áfengis- og tóbaksgjald skili 29,25 milljörðum í ríkiskassann á þessu ári en til samanburðar er gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur skili 27,90 milljörðum.

Í fjárlagaáætlun er áætlað er að áfengisgjald verði um 23,8 milljarðar króna árið 2022 sem er ögn hærra en áætlað er fyrir 2021. Gert er ráð fyrir að tóbaksgjald lækki um 100 milljónir.

Hyggjast hækka fleiri gjöld eftir áramót

Líkt og undanfarin ár er gert ráð fyrir að hin ýmsu krónutölugjöld hækki milli ára. Miðað er við að gjöldin hækki ekki meira en um 2,5% í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans en hækkunin nær til vörugjalda á áfengi, tóbaki og eldsneyti ásamt bifreiða- og kílómetragjaldi.

Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, útvarpsgjald og fjárhæðir kolefnisgjalds hækka einnig um 2,5%. Áætlað er að þessi breyting skili ríkissjóði 1,9 milljarða króna í tekjur á næsta ári. Hækkuðu gjöldin um sömu hlutfallstölu í fyrra. 

Þá hyggst ríkisstjórnin festa fjárhæð sóknargjalda við 985 krónur á einstakling á mánuði en samkvæmt því mun ákvörðuð hækkun sóknargjaldsins nema um hálfu prósenti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.