Fótbolti

Neymar sárþjáður og verður frá keppni fram á næsta ár

Sindri Sverrisson skrifar
Vel sást í sjónvarpi hvernig ökklinn snerist við tæklinguna og Neymar virtist finna mikinn sársauka.
Vel sást í sjónvarpi hvernig ökklinn snerist við tæklinguna og Neymar virtist finna mikinn sársauka. Skjáskot og Getty

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar var augljóslega þjáður þegar hann var borinn af velli eftir tæklingu í leik með PSG gegn Saint-Etienne í frönsku 1. deildinni í gær.

Nú er orðið ljóst að Neymar verður frá keppni í 6-8 vikur vegna tæklingarinnar frá Yvann Macon en hann meiddist í vinstri ökkla. Aðeins tvær mínútur voru eftir af leiknum.

„Því miður eru svona bakslög hluti af lífi íþróttamannsins. Núna þarf maður að herða upp hugann og halda áfram. Ég mun snúa aftur betri og sterkari,“ skrifaði Neymar á Instagram.

PSG vann leikinn 3-1 og er með tólf stiga forskot á Rennes á toppi frönsku deildarinnar.

Neymar kemur til með að missa af að minnsta kosti fjórum leikjum í deildinni áður en hann snýr aftur til keppni á næsta ári. Þá missir hann af síðasta leik PSG í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, gegn Club Brugge í næstu viku, en PSG er þegar öruggt um 2. sæti síns riðils og þar með farseðilinn í 16-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×