Innlent

Ævilöng svipting ökuréttinda felld niður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn var handtekinn í Vestmannaeyjum.
Maðurinn var handtekinn í Vestmannaeyjum. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur fellt niður ævilanga sviptingu ökuréttinda manns sem sakfelldur var fyrir að hafa verið óhæfur til að stjórna ökutæki sínu örugglega vegna áhrifa fíkniefna. 

Forsögu málsins má rekja til þess að umræddur maður var stöðvaður við akstur í Vestmannaeyjum í ágúst árið 2018. Var hann án tilskilinna ökuréttinda auk þess sem að lögregla taldi hann óhæfan til að stjórna bílnum örugglega vegna áhrifa fíkniefna.

Tetrahýdrókannabínólsýra mældist í þvagsýni sem maðurinn lét í té en ekki reyndist mælanlegt magn af sama efni í blóði mannsins.

Maðurinn var sakfelldur í Héraðsdómi Suðurlands árið 2019 fyrir brot sitt og honum gert að sæta þrjátíu daga fangelsi auk ævilangrar sviptingar ökuréttinda.

Ný umferðarlög samþykkt skömmu eftir dóminn

Skömmu eftir að dómur í máli hans féll samþykkti Alþingi frumvarp til nýrra umferðarlaga þar sem meðal annars var gerð sú breyting á að fellt var á brott það ákvæði þeirra að mæling á ávana-og fíkniefnum „í þvagi“ ökumanns gæti, ein og sér, talist viðhlítandi grundvöllur til stofnunar refsiábyrgðar.

Samkvæmt heimild í lögum óskaði maðurinn eftir því að þau viðurlög sem honum voru gerð með dóminum yrðu felld niður, þar sem refsinæmi þess verknaðar sem hann var sakfelldur fyrir hafi fallið niður, það er að samkvæmt nýju lögunum gæti mæling á ávana- og fíkniefnum í þvagi ökumans gæti ekki ein og sér verið grundvöllur til stofnunar refsiábyrgðar.

Lögreglan í Vestmannaeyjum handtók manninn.Vísir/Vilhelm

Vísaði maðurinn til þess að í játningu hans í dómsmálinu fyrir héraðsdómi hafi ekki falist að hann hafi gengist við því að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn, heldur að hún hafi aðeins tekið til þess að þar sem fíkniefni hafi mælst í þvagsýni frá honum hafi hann brotið gegn þágildandi umferðarlögum.

Í dómi Landsréttar segir að það liggi fyrir að sú háttsemi sem maðurinn var sakfelldur fyrir sé nú refsilaus. Taldi Landsréttur því rétt að fella niður refsingu mannnsins. Var ævilöng ökuréttarsvipting hans því felld úr gildi.

Þá var þrjátíu daga fangelsisrefsing mannsins einnig felld niður. Þó þarf hann að greiða tuttugu þúsund króna sekt fyrir að hafa ekið án tilskilinna ökuréttinda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×