Innlent

Lög­reglu borist kvartanir vegna vopnaðra veiði­manna á fjór­hjólum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan bendir á að brot sem þessi geti leitt til upptöku á vopnum, afla og ökutækja.
Lögreglan bendir á að brot sem þessi geti leitt til upptöku á vopnum, afla og ökutækja. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á Vestfjörðum hafa borist kvartanir vegna veiðimanna sem sótt hafi veiðisvæði innan umdæmisins á fjórhjólum. Umræddir veiðimenn hafi verið með skotvopn um hönd á hjólunum, sem brjóti í bága við lög.

Þetta kemur fram í færslu lögreglunnar á Facebook nú fyrir skemmstu. Þar segir að athæfið teljist raunar vera lögbrot á nokkra vegu:

„Fyrir það fyrsta er öll meðhöndlun hlaðinna skotvopna bönnuð á eða við farartæki nær en 250m, vopn skal ekki meðhöndla opinberlega og við burð og flutning á skotvopnum milli staða skulu þau vera óhlaðin og í umbúðum. Á þetta einnig við um flutning vopns til og frá veiðislóð . Eins má ekki skjóta á, yfir eða frá vegi enda getur slíkt skapað stórhættu.“

Þá sé óheimilt að vera á vélknúnum ökutækjum við rjúpnaveiðar. Slík hjól megi aðeins nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum, en þá einungis á vegum eða merktum vegslóðum.

„Eins má ekki skjóta á, yfir eða frá vegi enda getur slíkt skapað stórhættu. Þá er einnig með öllu óheimilt að vera á vélknúnum ökutækjum við rjúpnaveiðar en þau má einungis nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegslóðum og þá með vopnin með fyrrnefndum hætti. Þrátt fyrir að í náttúruverndarlögum sé kveðið á undantekningu á banni við akstri vélknúinna ökutækja utan vega vegna snjóalaga þá á það ekki við í þeim tilfellum þar sem veiðimenn eru fluttir á veiðilendur.“

Lögreglan brýnir fyrir fólki sem kann að verða vart við eða heyra af brotum sem þessum að hafa samband við neyðarlínu og tilkynna slíkt athæfi. Þá sé vert að brýna fyrir þeim sem stundi athæfið að í lögum sé heimild til þess að gera skotvopn, afla og ökutæki upptæk við brot sem og að beita fjársektum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.