Innlent

Undirbúa flutning og framkvæmdir vegna myglu í Hagaskóla

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nemendur í áttunda bekk í Hagaskóla munu á morgun verja deginum á söfnum víðsvegar um borgina en stefnt er að því að hefðbundið skólastarf geti hafist að nýju á mánudag í nýju bráðabirgðahúsnæði.
Nemendur í áttunda bekk í Hagaskóla munu á morgun verja deginum á söfnum víðsvegar um borgina en stefnt er að því að hefðbundið skólastarf geti hafist að nýju á mánudag í nýju bráðabirgðahúsnæði. Vísir/Vilhelm

Undirbúningur flutnings og framkvæmda vegna myglu í Hagaskóla er hafinn hjá skólastjórnendum. Nemendur í áttunda bekk skólans verða fluttir í tímabundið húsnæði á meðan unnið verður að endurbætum í norðausturálmu skólans.

„Verið er að ganga frá samningum um tímabundið húsnæði fyrir kennslu 8. bekkjar Hagaskóla á meðan endurbætur fara fram á norðaustur álmu skólans. Unnið er að nýjum verkferlum Reykjavíkurborgar um rakaskemmdir eða myglu og var brugðist hratt við ábendingum um slæma innivist,“ segir í tilkynningu frá Evu Bergþóru Guðbergsdóttur teymisstjóra samskiptasviðs Reykjavíkurborgar. 

Skólastjórnendum Hagaskóla bárust í október ábendingar um að tilefni væri til að kanna loftgæði í norðausturálmu skólans og var þá strax kallað eftir aðstoð sérfræðinga til að rannsaka húsnæðið. 

Tekin voru sýni úr gólfi og múr og loftræstikerfi hreinsað og tekið út. Frumniðurstöður frá verkfræðistofunni Eflu bárust í gær og kom þar fram að einhver leki hafði átt sér stað í múrvegg og fannst þar mygla. 

„Unnið er samkvæmt nýjum verkferlum sem fara í gang um leið og grunur beinist að rakaskemmdum eða myglu og voru niðurstöðurnar strax kynntar fyrir stjórnendum og starfsfólki. Ákveðið var að engin kennsla myndi fara fram í þessum hluta húsnæðisins þar til endurbætur hafa farið fram,“ segir í tilkynningunni. 

Því hafi ekki annað komið til greina en að kennsla yrði felld niður í áttunda bekk í dag á meðan áætlanir væru gerðar um framhaldið. Hópur kennara kom saman í morgun, hóf undirbúning flultninga og skipulagði dagskrá fyrir börnin á morgun. Mun skóladagur þeirra á morgun því fara í vettvangsferðir á söfn víðs vegar um borgina en stefnt er að því að kennsla hefjist í nýju húsnæði á mánudag. 

„Þegar er byrjað að undirbúa framkvæmdir þó enn sé verið að vinna að endanlegri áætlun. Fundað verður með starfsfólki á morgun þar sem sérfræðingar munu fara yfir stöðuna á húsnæðinu og það sem er framundan. “



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×