Innlent

Sló til starfsmanns við innritun og flaug beint í flugbann

Jakob Bjarnar skrifar
Leifsstöð. Þar gengur oft mikið á og um helgina brást einn farþega sem var á leið til Bandaríkjanna ókvæða við þegar starfsmaður Icelandair vildi tala við hann á ensku. Myndin tengist atvikinu ekki.
Leifsstöð. Þar gengur oft mikið á og um helgina brást einn farþega sem var á leið til Bandaríkjanna ókvæða við þegar starfsmaður Icelandair vildi tala við hann á ensku. Myndin tengist atvikinu ekki. vísir/vilhelm

Ónefndur farþegi sló til starfsmanns Icelandair á sunnudaginn og var umsvifalaust settur í flugbann um óákveðinn tíma, meðan málið er til rannsóknar.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfestir þetta í samtali við Vísi en RÚV greindi fyrst frá þessu atviki.

Ásdís Ýr segist á þessu stigi ekki vita hvað það var sem manninum gekk til, hvort hann hafi verið undir áhrifum eða hvað olli því að hann vildi veitast að starfsmanninum með þessum hætti.

Ásdís Ýr Pétursdóttir er upplýsingafulltrúi Icelandair.

„Ég er ekki með nákvæma atvikalýsingu en þetta átti sér stað og við innritun. Að sjálfsögðu leggjum við aðalatriði á öryggi starfsfólks og farþegar. líðum ekki ofbeldi og samkvæmt okkar öryggisferlum er niðurstaðan sú að viðkomandi er ekki heimilt að ferðast meðan málið er í skoðun. Það er af öryggisástæðum.“

Þá segist Ásdís ekki vera með það á takteinum hversu margir flugdólgar séu á skrá og í flugbanni. Hún geti bara vísað til þessa tiltekna atviks.

Í frétt Ríkisútvarpsins af þessu atviki er hermt að um Íslending hafi verið að ræða og var hann á leið til Bandaríkjanna. Ástæða reiðinnar mun vera sú að hann krafðist þess að fá að tala íslensku við innritun þegar erlendur starfsmaður þar ávarpaði hann á ensku. Þá var kallaður til yfirmaður sem einnig er erlendur og þá var manninum nóg boðið og vildi láta hnefana tala.

Ásdís segir í samtali við Vísi að lögreglu hafi þegar verið gert viðvart og var starfsmanni boðin áfallahjálp.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.