Fótbolti

Ingibjörg mætti með hníf til að skrifa undir

Sindri Sverrisson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir mundar hnífinn í gríni, í innslagi Vålerenga. Hún er vön að láta finna vel fyrir sér eins og hún gerði gegn Hollendingum í haust.
Ingibjörg Sigurðardóttir mundar hnífinn í gríni, í innslagi Vålerenga. Hún er vön að láta finna vel fyrir sér eins og hún gerði gegn Hollendingum í haust. Skjáskot og Getty

Landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir hefur ákveðið að halda tryggð við bikarmeistara Vålerenga og framlengja dvöl sína í Noregi um að minnsta kosti tvö ár.

„Ég er mjög ánægð með að hafa framlengt samninginn við Vålerenga um tvö ár og get ekki beðið eftir því að halda vinnunni áfram og ná fleiri markmiðum með liðinu,“ segir Ingibjörg.

Vålerenga greinir frá samningnum við þessa 24 ára gömlu knattspyrnukonu frá Grindavík, í skemmtilegri klippu á samfélagsmiðlum.

Í lok klippunnar fær Ingibjörg samning í hendurnar, dregur þá upp myndarlegan hníf og er hálfhissa á að þurfa að útskýra hvað hún ætli að gera við hann: „Á Íslandi skrifum við undir með blóði,“ segir Ingibjörg, með húmorinn í lagi.

Með Ingibjörgu sem lykilmann í varnarleiknum varð Vålerenga norskur bikarmeistari fyrir hálfum mánuði, annað árið í röð.

Ingibjörg lék áður með Djurgården í Svíþjóð í tvö ár og með Breiðabliki og Grindavík heima á Íslandi.

Ingibjörg hefur leikið 40 A-landsleiki og er í landsliðshópnum sem mætir Japan og Kýpur síðar í þessum mánuði.

Leiktíðinni í norsku úrvalsdeildinni lauk um helgina og þar endaði Vålerenga, sem er einnig með Amöndu Andradóttur innanborðs, í 4. sæti með 35 stig. Sandviken, sem tapaði bikarúrslitaleiknum gegn Vålerenga, varð norskur meistari með 52 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.