Innlent

Hekla undir smásjá vegna skjálftahrinu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Sérfræðingar á Veðurstofu Íslands munu fylgjast vel með Heklu á næstu dögum vegna skjálftavirkni á svæðinu. Nú eru þó engin merki um yfirvofandi eldgos.
Sérfræðingar á Veðurstofu Íslands munu fylgjast vel með Heklu á næstu dögum vegna skjálftavirkni á svæðinu. Nú eru þó engin merki um yfirvofandi eldgos. vísir/Vilhelm

Yfir þrjú hundruð eftirskjálftar hafa mælst á svæðinu við Vatnafjöll nærri Heklu frá stóra skjálftanum í gær. Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir Heklu undir smásjá vegna hrinunnar. Engin merki séu þó um yfirvofandi eldgos.

Jarðskjálfti af stærðinni 5,2 reið yfir við Vatnafjöll í nágrenni Heklu um klukkan hálf tvö í gær. Skjálftinn fannst víða á suðvesturhorninu en jörð skalf hressilega á Suðurlandi og var íbúum nærri upptökunum nokkuð brugðið.

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að yfir þrjú hundruð eftirskjálftar hafi mælst á svæðinu síðan þá.

„Það hefur dregið verulega úr þeim eftir miðnætti en það má alveg búast við þeim áfram næstu daga þar sem svæðið er að jafna sig.“

Þrátt fyrir að skjálftarnir séu margir eru þeir ekki stórir.

„Þeir hafa nú allir verið undir þremur að stærð og við höfum ekki fengið neinar tilkynningar um að þeir hafi fundist.“

Sá stærsti mældist 2,7 að stærð. Elísabet segir Veðurstofuna fylgjast vel með Heklu vegna hrinunnar sökum nálægðar við upptökin. „Við sjáum engin merki um að hún sé að gera sig tilbúna. En hún verður alveg pottþétt undir smásjá næstu daga hjá okkur.“

Skjálftarnir virðist hefðbundnir Suðurlandsskjálftar. „Og þarna einmitt fáum við þessa stærstu skjálfta á Íslandi,“ segir Elísabet.

Skjálfti að stærðinni 3,2 varð einnig í nágrenni Keilis um klukkan fimm í nótt. Elísabet segir hann hafa fundist vel í nágrenninu en vera áframhald á skjálftavirkni síðustu vikna á því svæði. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.