Innlent

Spítalinn geti ekki starfað eðlilega nema með fleiri hjúkrunarrýmum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Landspítalans.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Landspítalans. Vísir/Vilhelm

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Landspítalans, segir starfsemi spítalans að miklu leyti standa og falla með fjölda hjúkrunarrýma í landinu. Á meðan hjúkrunarrýmin séu þetta fá geti spítalinn ekki starfað með eðlilegum hætti. Landspítalinn var færður á hættustig í gær.

„Dagleg starfsemi og þessi daglegi rekstur dugir ekki til þess að taka við covidsjúklingum. Við erum með heila legudeild undir og á meðan svo er þá eru engir aðrir sjúklingar þar. Við þurfum að draga eins mikið úr starfseminni og við mögulega getum,“ segir Guðlaug.

Viðbragðsstjórn og farsóttanefnd færðu spítalann síðdegis í gær yfir á hættustig, en þá lágu þrír á gjörgæslu. Guðlaug segir þetta meðal annars þau áhrif að draga þurfi úr skurðaðgerðum auk þess sem heimsóknarbann hefur verið sett á.

Er það ekki ákveðinn áfellisdómur yfir Landspítalanum, að það þurfi að færa hann yfir á hættustig þegar það eru aðeins þrír inniliggjandi með covid á gjörgæslu?

„Þetta er alls ekki svona einfalt. Við erum með heila legudeild undir fyrir covid. Það eru núna tæplega 1200 manns sem eru í eftirliti í covid göngudeildinni hjá okkur og það þarf mannskap til að sinna því. Þessi smitsjúkdómadeild sem er lokuð er lokuð fyrir innlagnir annarra sjúklinga og það þýðir það að við þurfum að draga úr starfseminni. Þannig að nei, þetta er ekki áfellisdómur yfir Landspítala – langur vegur frá.“

Ríkisstjórnin hefur ítrekað lýst því yfir að fjárframlög til heilbrigðiskerfisins hafi verið stóraukin, og raunar sjaldan verið meiri. Guðlaug segir þetta spurningu um mönnun og fjölda hjúkrunarrýma.

„Þetta stendur og fellur með að það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum. Það þarf að styrkja heimaþjónustu, það þarf að fjölga rúmum á Landspítala sem við erum sannarlega að gera og erum að vinna að núna, að opna fleiri rúm í næstu viku, til dæmis inni á Landakoti. Allt þetta krefst fjármagns og mannskaps. Það þarf mönnun í að opna fleiri rúm, hvort sem það er á Landspítala eða á hjúkrunarheimilum,“ segir Guðlaug og bætir við að hún hafi áhyggjur af stöðunni.

„Auðvitað hefur maður áhyggjur af stöðunni, sérstaklega í ljósi þess að smitum fer fjölgandi og eftir því sem smitum fjölgar að þá fjölgar innlögnum á Landspítala. En við erum fyrst og fremst að reyna að bregðast við og það virðist ganga eftir að innlögnum fjölgar í takt við fleiri smit.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.