Innlent

Aldrei meiri um­ferð um Hring­veginn

Eiður Þór Árnason skrifar
Mest var aukningin á Mýrdalssandi.
Mest var aukningin á Mýrdalssandi. Vísir/Vilhelm

Aldrei hefur fleiri bílum verið ekið um Hringveginn í októbermánuði og jókst umferðin um nærri 32 prósent frá sama tíma í fyrra. Mesta aukningin var á Mýrdalssandi þar sem umferðin reyndist 251 prósent meiri en í fyrra.

Met var slegið í umferð yfir sextán lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringveginum og hafa aldrei farið fleiri ökutæki yfir umrædd mælisnið í október. Vegagerðin telur nærtækast að líta til fjölgunar erlendra ferðamanna þó þeir séu töluvert færri nú en fyrir faraldur.

„Hugsanlega er líka aukning á ferðum Íslendinga, að heimamenn séu enn að ferðast innanlands í auknum mæli. Ef til vill í stað ferða erlendis t.d. í vetrarfríum skólanna. Einnig verður að teljast líklegt að umsvifin í efnahagslífinu séu nú að aukast hratt. Þetta hefur þó ekki verið skoðað sérstaklega,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Umferð aukist um 12,5 prósent frá áramótum

Umferð jókst á öllum landsvæðum en mest yfir mælisnið á Norðurlandi eða um rúmlega 58 prósent. Mest var aukningin á Mýrdalssandi, líkt og áður segir, en þó er ekki um að ræða met aukningu þar sem umferð á Hvalsnesi í Lóni jókst um 256% milli septembermánaða 2020 og 2021. Eru þessar miklu hlutfallsaukningar til komnar vegna þess að umferð dróst mikið saman á síðasta ári í áhrifa heimsfaraldursins.

Núna hefur umferð aukist um 12,5 prósent frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Hlutfallslega hefur umferð aukist mest um Austurland eða um 29 prósent.

Vegagerðin

Mest ekið á föstudögum

Nú þegar aðeins tveir mánuður eru eftir af árinu má búast við því að umferðin í ár aukist um 13,5 prósent miðað við síðasta ár. Verði af þessari aukningu dugar hún samt ekki til þess að fara upp fyrir árið 2019 og yrði um 2 prósent minni en það ár, að sögn Vegagerðarinnar.

Það sem af er ári er mest ekið um Hringveginn á föstudögum en minnst á laugardögum. Umferð hefur aukist mest á sunnudögum eða um 16 prósent en minnst hefur aukningin orðið á fimmtudögum eða 10 prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×