Fótbolti

Viðar Ari tryggði Sandefjord sigur í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viðar Ari, til hægri. Hér er hann með Ísfirðingnum Emil Pálssyni en þeir voru samherjar á síðustu leiktíð. Emil leikur nú með Sarpsborg í sömu deild.
Viðar Ari, til hægri. Hér er hann með Ísfirðingnum Emil Pálssyni en þeir voru samherjar á síðustu leiktíð. Emil leikur nú með Sarpsborg í sömu deild. mynd/sandefjord

Íslendingar voru í eldlínunni í fjórum af þeim fimm leikjum sem var að ljúka rétt í þessu í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Viðar Ari Jónsson skoraði seinna mark Sandefjord er liðið vann 2-0 sigur gegn Íslendingaliðinu Strömsgodset.

Það var Alexander Ruud Tveter sem kom heimamönnum í Sandefjord í 1-0 forystu á 50. mínútu, áður en Viðar Ari tvöfaldaði forystuna tveimur mínútum síðar eftir stoðsendingu frá Kristoffer Hansen. Þetta reyndist seinasta mark leiksins og lokatölur því 2-0.

Ari Leifsson var í byrjunarliði Strömsgodset og Valdimar Ingimundarson spilaði seinustu tíu mínúturnar fyrir liðið.

Sandefjord færir sig upp í tíunda sæti með sigrinum, og er nú aðeins einu stigi á eftir Strömsgodset sem situr í níunda sæti.

Adam Örn Arnarson spilaði seinustu tíu mínúturnar fyrir Tromsö er liðið vann 2-0 sigur gegn Odd á heimavelli. Tromsö og Odd sitja í 11. og 12. sæti, bæði með 28 stig.

Brynjólfur Darri Willumsson kom inn á sem varamaður á 69. mínútu fyrir Kristiansund er liðið steinlá fyrir botnliði Mjondalen, 4-0. Sigurinn kom Mjondalen reyndar af botninum og er liðið nú í næst neðsta sæti með 18 stig. Kristiansund situr í því fimmta með 39 stig.

Hólmar Örn Eyjólfsson þurfti að sætta sig við bekkjarsetu er hann og félagar hans í Rosenborg gerðu markalaust jafntefli við Haugesund. Hólmar og félagar sitja í þriðja sæti deildarinnar með 42 stig, tíu stigum meira en Haugesund sem situr í því áttunda.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.