Erlent

Óttast að þrennt hafi farið fram af fimm­tán metra háum fossi

Atli Ísleifsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Önnur ár bátsins er fundin og var hún í ánni fyrir neðan fossinn. Myndin er úr safni.
Önnur ár bátsins er fundin og var hún í ánni fyrir neðan fossinn. Myndin er úr safni. Getty

Mikil leit stendur nú yfir að þremur einstaklingum – tveimur körlum og einni konu – sem týndust í Noregi í gærkvöldi.

Fólkið var um borð í litlum árabát og er óttast að báturinn hafi farið fram af fimmtán metra háum, vatnsmiklum fossi í Tokagili í Hörðalandi í vesturhluta landsins, að því er segir í frétt VG.

Um fimmtíu manns komu að leitinni í gær en skilyrði eru erfið, mikil rigning, vindur og þoka. Þokan hefur þannig komið í veg fyrir að hægt sé að beita þyrlu til leitar.

Leit verður fram haldið í dag en aðgerðarstjóri á vettvangi segir að eftir því sem tíminn líður minnki líkurnar á því að fólkið finnist á lífi.

Fólkið var á leið í sumarbústað og þurftu að róa bátnum yfir stöðuvatn sem fossinn fellur úr og virðist sem þau hafi misst stjórn á bátnum með þessum afleiðingum.

Önnur ár bátsins er fundin og var hún í ánni fyrir neðan fossinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×