Síðasta árið hafa kvöldfréttirnar verið styttri á laugardögum og sunnudögum en með breytingunni verður fréttapakkinn sjálfur næstum tvöfalt lengri.
„Með fjölgun áskrifenda og miklu áhorfi á fréttatímann viljum við bæta þjónustuna og bjóða upp á þétta og innihaldsríka fréttatíma alla daga vikunnar,“ segir Erla Björg Gunnarsdóttir, ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar.
Frá því að Stöð 2 varð hrein áskriftarstöð og fréttaglugganum var lokað hefur áskrifendum fjölgað um þúsundir og þriðjungur hið minnsta horfir á fréttatímann á hverju kvöldi.
„Við munum áfram gera daglegum fréttum góð skil en einnig bjóða upp á lengri umfjallanir og taka fyrir ýmis áhugaverð mál um helgar. Um helgina munum við til dæmis fjalla um móður sem hefur stofnað skóla heima hjá sér og er með barnið sitt í heimakennslu allan veturinn. Einnig reynum við að leysa eilífðar ráðgátu um listaverk sem hefur lifað með þjóðinni áratugum saman,“ segir Erla Björg.