Innlent

Höfðu hendur í hári stórtæks síbrotamanns eftir árekstur og afstungu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Setning Alþingis / Lögreglan
Setning Alþingis / Lögreglan Foto: Vilhelm Gunnarsson

Landsréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að stórtækur þjófur með langan brotaferil að baki skuli sitja í gæsluvarðhaldi til 4. nóvember næstkomandi. Samtals er 31 opið mál á borði lögreglu sem tengist manninum.  Lögregla handsamaði manninn á stolnum bíl eftir árekstur og afstungu.

Úrskurður Landsréttar var kveðinn upp á föstudaginn og birtur á þriðjudaginn. Í honum kemur fram að maðurinn sé grunaður um margítrekuð auðgunarbrot. Var hann handtekinn á stolnum bíl eftir að hann stakk af eftir umferðaróhapp þann 10. október síðastliðinn. Sama dag hafði hann pantað mat á veitingastað í Reykjavík og gengið út án þess að greiða fyrir matinn.

Í úrskurðinum eru fleiri meint brot manns rakin, sum hver sem hann hefur játað að hafa framið. Er hann meðal annnars grunaður um að hafa, á tímabilinu 26. október á síðasta ári til 10. október á þessu, stolið greiðsluposa, spjaldtölvum að virði hundruð þúsunda, nokkrum iPhone-símum og dýrum rafhlaupahjólum, svo dæmi séu nefnd.

Plataði starfsmenn til að leyfa sér að prófa rafhlaupahjól

Er hann til dæmis sakaður um að hafa þann 13. ágúst síðastliðinn farið í ótilgreinda verslun í Reykjavík, framvísað þar ökuskírteini annars manns og blekkt starfsmenn verslunarinnar til að leyfa sér prófa rafmagnshlaupahjól af gerðinni Power Zero 10-x að söluverðmæti 219.995 kr.

Hjólinu skilaði hann ekki aftur. Við skýrslutöku hjá lögreglu 13. ágúst kannaðist kærði við atvikið og taldi líklegra en ekki að hann væri sekur um háttsemina, að því er fram kemur í úrskurði Landsréttar.

Framvísaði fölsuðu skjáskoti af millifærslu

Þá hefur hann einnig játað sök í fjársvikamáli er hann fékk ótilgreindan einstakling til að afhenda sér hlaupahjól að verðmæti 45 þúsund krónur. Þóttust hann og samverkamaður hans hafa greitt fyrir með því að sýna falsað skjáskot af millifærslu fyrir viðskiptunum en greiðslan barst ekki inn á reikning tjónþola.

Er það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að maðurinn muni halda áfram brotum gangi hann laus, nauðsynlegt sé að ljúka þeim málum sem séu til meðferðar hjá ákæruvaldi og lögreglu sem fyrst.

Kemur einnig fram að maðurinn eigi að baki langan sakaferil, meðal annars fyrir auðgunarbrot sem hafa ítrekunaráhrif til refsiþyngingar á þau brot sem nú eru til rannsóknar.

Héraðsdómur úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald til 4. nóvember og Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms á föstudaginn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.