Fótbolti

Leggur til hefndaraðgerðir eftir skelfilega nótt í Manchester fyrir leik kvöldsins

Sindri Sverrisson skrifar
Ruslan Malinovskyi mun hafa átt erfitt með svefn í nótt vegna sífelldra truflana.
Ruslan Malinovskyi mun hafa átt erfitt með svefn í nótt vegna sífelldra truflana. Getty/Jonathan Moscrop

Leikmenn ítalska félagsins Atalanta áttu erfitt með svefn í Manchester í nótt þar sem að brunaviðvörunarkerfið á hóteli þeirra mun hafa farið fimm eða sex sinnum í gang með miklum látum. Eiginkona eins leikmanna Atalanta lagði til hefndaraðgerðir.

Manchester United og Atalanta mætast í mikilvægum leik í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld. Liðin munu svo mætast að nýju á Ítalíu 2. nóvember.

Roskana Malinovskiy, eiginkona miðjumannsins Ruslan Malinovskiy, segir á Instagram að brunaviðvörunarkerfið á The Edwardian Manchester hótelinu hafi eyðilagt nóttina fyrir leikmönnum:

„Nóttin í Manchester helvíti líkust. Yfir nóttina fór brunaviðvörunarkerfið fimm sinnum í gang af fullum krafti,“ skrifaði hún.

„Þetta gerðist akkúrat þegar liðið kom, og bara um nóttina! Haldið þið að þetta sé bara slys? Það held ég ekki,“ skrifaði Roskana og bætti við:

„Ég vona að stuðningsmenn okkar styðji liðið í heimaleiknum og kannski gerist óvænt það sama á ítölsku hóteli.“

Annar gestur greindi frá því á Twitter að brunaviðvörunarkerfið hefði farið í gang sex sinnum.

Leikur United og Atalanta hefst klukkan 19 í kvöld og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2. Atalanta er með 4 stig í F-riðli en United og Young Boys með 3 stig og Villarreal 1.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×