Fótbolti

Hótar að hætta hjá PSG ef eiginkonan kemur ekki aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mauro Icardi og Wanda Nara meðan allt lék í lyndi.
Mauro Icardi og Wanda Nara meðan allt lék í lyndi. getty/Handout

Vandræði í einkalífinu gætu orðið til að Mauro Icardi yfirgefi franska stórliðið Paris Saint-Germain.

RMC Sport greinir frá því að Icardi hafi hótað því að fara frá PSG ef eiginkonan, Wanda Nara, snýr ekki aftur til hans.

Nara skaut fast á Icardi á samfélagsmiðlum um helgina og sakaði hann um að hafa haldið framhjá sér. Hún hætti að fylgja framherjanum á Instagram og sakaði hann um að hafa eyðilagt aðra fjölskyldu. Hann á að hafa haldið framhjá henni með fyrirsætunni Chinu Suárez. Nara birti svo mynd af sér á Instagram án giftingarhringsins.

Í örvæntingarfullri tilraun til að reyna að fá Nöru til að taka aftur saman við sig hefur Icardi hótað að yfirgefa PSG. Ef samningnum yrði rift hefði það ekki bara fjárhagsleg áhrif á Icardi heldur einnig Nöru sem er umboðsmaður hans. Samningur Icardis við PSG rennur út 2024.

Icardi fékk frí á æfingu hjá PSG í gær og fyrradag og missir af leiknum gegn RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu í kvöld vegna fjölskylduástæðna.

Argentínumaðurinn hefur meðal annars verið orðaður við Newcastle United, Tottenham og Juventus. Hann lék áður með Inter og var meðal annars fyrirliði liðsins.

Icardi og Nara byrjuðu að draga sig saman þegar hann lék með Sampdoria. Nara var þá gift samherja og samlanda, Maxi López. Þau áttu þrjú börn. Nara og Icardi giftust 2014 og eiga tvö börn saman.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.