Enski boltinn

Mane finnst mark Salah um helgina flottara en markið á móti Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsfélagar Mohamed Salah, þeir Naby Keita, Trent Alexander-Arnold og Roberto Firmino, fagna Egyptanum snjalla eftir markið um helgina.
Liðsfélagar Mohamed Salah, þeir Naby Keita, Trent Alexander-Arnold og Roberto Firmino, fagna Egyptanum snjalla eftir markið um helgina. Getty/Justin Setterfield

Ef það er einhver leikmaður sem er að gera tilkall til þess að vera besti knattspyrnumaður heims þá er það Mohamed Salah hjá Liverpool.

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo hafa eignast sér efstu tvö sætin í miklu meira en áratug en þeir hafa ekki alveg náð að sýna sitt besta að undanförnu.

Á móti hefur Mo Salah spilað frábærlega í upphafi leiktíðar og átti enn einn stórleikinn í 5-0 sigri á Watford í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Hann hjálpaði fyrst Sadio Mane að komast í hundrað marka hópinn með stórkostlegri stoðsendingu en skoraði síðan enn eitt markið eftir stórbrotin einleik.

Sadio Mane tjáði sig um mark Salah í viðtali á Liverpool síðunni en þar var rætt við Senegalann í tilefni af hundraðasta marki hans í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég kom í ensku úrvalsdeildinni til að skora eins mikið af mörkum og ég get og ekki síst að vinna titla. Í dag er ég mjög ánægður og mjög stoltur af því að skora hundrað mörk. Vonandi eru fleiri mörk og fleiri titlar á leiðinni,“ sagði Sadio Mane.

Markið hans Mo Salah gerði út um leikinn en það kom eftir magnaðan einleik inn í vítateig Watford liðsins.

„Mér finnst þetta mark vera betra en markið hans á móti Man. City. Það kemur okkur samt ekkert á óvart enda þekkjum við hans gæði sem einn af bestu fótboltamönnum í heimi. Hann sýndi það í dag,“ sagði Mane.

Það má ekki gleyma Roberto Firmino sem skoraði þrennu í leiknum en öll mörkin hans voru af einfaldari gerðinni og af stuttu færi.

„Bobby líka, hann sýndi það að hann er líka einn af þeim bestu í heimi. Ég er mjög ánægður fyrir þeirra hönd. Ekki síst með þrennuna hans Bobby. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir hann að glíma við meiðslin en hann er kominn aftur,“ sagði Mane.

„Vonandi verður hann til staðar fyrir okkur og heldur áfram að skora mörk fyrir okkur til loka tímabilsins,“ sagði Mane.

„Við spiluðu auðvitað mjög vel í dag. Byrjunin var mjög góð og við bjuggum til mikið af færum. Við skoruðum fimm yndisleg mörk,“ sagði Sadio Mane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×