Fótbolti

Fyrirliði Dana telur að liðið geti farið langt á HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simon Kjær fagnar marki með félögum sínum í danska landsliðið. Liðið hefur unnið alla átta leiki sína í undankeppninni og enn ekki fengið á sig mark.
Simon Kjær fagnar marki með félögum sínum í danska landsliðið. Liðið hefur unnið alla átta leiki sína í undankeppninni og enn ekki fengið á sig mark. AP/Aurel Obreja

Danir urðu í gær önnur Evrópuþjóðin sem tryggir sér sæti í úrslitakeppni HM í Katar en Danir hafa unnið fyrstu átta leikina sína í riðlinum og hafa gulltryggt sér efsta sætið.

Kvöldið áður tryggðu Þjóðverjar sér sitt sæti en Danir bættust í hópinn í gærkvöldi. Úrslitin í hinum riðlinum í evrópska hlutanum af undankeppni HM 2022 munu ekki ráðast fyrr en í nóvemberglugganum.

Danir tryggðu sig inn á HM með þessum 1-0 sigri á Austurríki í Kaupmannahöfn í gær en það Joakim Mæhle, bakvörður Atalanta á Ítalíu, var sem skoraði sigurmarkið í seinni hálfleiknum.

Fyrirliðinn Simon Kjær var líka kokhraustur eftir leikinn enda ánægður með að sætið sé tryggt þegar enn eru eftir tvær umferðir í riðlinum.

Danir komust alla leið í undanúrslitin á EM í sumar þrátt fyrir að missa sinn besta mann, Christian Eriksen, út í fyrsta leik eftir að miðjumaðurinn snjalli lenti í hjartstoppi. Eriksen hann náði sér sem betur fer en er ekki farinn að spila fótbolta aftur.

„Við erum komnir langa leið en við erum bara orðnir hungraðri í eitthvað meira,“ sagði Simon Kjær í viðtali við Kanal 5 eftir leikinn.

„Við höfum byggt upp sterkan hóp og heilbrigt hugarfar og menn eru alltaf reiðubúnir að bæta sig. Við vegum hvern annan upp og það plús gæðin í liðinu okkar getur farið með okkur langt,“ sagði Kjær.

Danir eru með sjö stiga forskot á Skota sem eru í öðru sæti riðilsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.