Innlent

Of­beldis­fullt sjón­varps­efni vin­sælt meðal ung­linga: „Þetta er ekki í boði í fé­lags­mið­­stöðinni“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Squid Game eru suður-kóreskir þættir sem njóta vinsælda um allan heim.
Squid Game eru suður-kóreskir þættir sem njóta vinsælda um allan heim. Vísir/netflix

Forstöðumaður í félagsmiðstöð segir að á hverjum einasta degi biðji krakkar um að fá að horfa á hina sívinsælu og ofbeldisfullu þætti - Squid Game. Hann segir mikilvægt að samtal fari fram um skaðsemi ofbeldisfulls efnis.

Suður-kóresku þættirnir Squid Game eru langvinsælustu þættirnir á efnisveitunni Netflix og það í 90 löndum. Þættirnir eru mjög ofbeldisfullir og bannaðir börnum yngri en 17 ára.

Allir tali um Squid Game

Fréttamaður ræddi við nokkra forstöðumenn félagsmiðstöðva í dag sem sögðu að það væri greinilegt að börn horfðu á þættina. Börn biðji um að farið verði í þá leiki sem fram koma í þættinum og eru dæmi um að tíu ára börn horfi á þá.

„Þau vita öll hvað þetta er. Þau eru öll að tala um þetta en það er misjafnt hvort þau séu að horfa á þetta. Þetta er í umræðunni, þetta er á TikTok og öllum samfélagsmiðlunum þeirra, þannig að lífið snýst svolítið um Squid Game þessa dagana,“ sagði Ólafur Þór Jónsson, forstöðumaður í félagsmiðstöðinni Buskanum.

TikTok stútfullt af Squid Game

Í Facebook-hópnum Mæðratips lýsa mæður yfir áhyggjum af áhorfi barna. Ólafur segir að mikill áhugi sé fyrir þáttunum á meðal þeirra.

„Það líður ekki vakt án þess að þau biðji um að horfa á þáttinn en þetta er ekki í boði í félagsmiðstöðinni.“

Þá segir hann TikTok stútfullt af efni úr þáttunum.

„Aðgengi að öllu efni er náttúrulega orðið rosalegt. TikTok er stútfullt af mjög óeðlilegu og óheilbrigðu efni fyrir þessa krakka.“

Hann segir mikilvægt að samtal fari fram í félagsmiðstöðvum sem og á milli foreldra og barna um skaðsemi ofbeldisfulls efnis.

Nú styttist í hrekkjavökuna. Eru einhverjir farnir að tala um að vera í Squid Game búningum?

„Já ég hef heyrt það að margir ætli að vera brúðan eða fangarnir. Ég held að þetta verði Squid Game Halloween.“


Tengdar fréttir

Spilaði í „Squid Game“ skóm í NFL í nótt

Stefon Diggs og félagar í Buffalo Bill fóru illa með Kansas City Chiefs liðið í sunnudagskvöldsleik NFL-deildarinnar. Útherjinn er greinilega einn af mörgum aðdáendum suður-kóreska sjónvarpsþáttarins Squid Game.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.