Innlent

Segist hafa misskilið að Erna vildi í flokkinn

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Ingvar P. Guðbjörnsson formaður kjördæmaráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi
Ingvar P. Guðbjörnsson formaður kjördæmaráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi Vísir

Erna Bjarnadóttir varaþingmaður Miðflokksins segist ekki hafa ætlað að fylgja Birgi Þórarinssyni í Sjálfstæðisflokkinn. Hann hafi oftúlkað orð hennar um það. Tilkynningu þar sem Erna var boðin velkomin í Sjálfstæðisflokkinn var breytt rétt fyrir hádegi.

Sjálfstæðisflokkurinn tilkynnti á heimasíðu sinni á laugardag og í Facebook-deilingu flokksins í Suðurkjördæmi að Erna Bjarnadóttir, varaþingmaður Birgis Þórarinssonar og Miðflokkskona, hafi ákveðið að fylgja Birgi yfir í Sjálfstæðisflokkinn og starfa innan þingflokks hans. Tilkynningin var á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins í morgun. Erna tilkynnti hins vegar í morgun í Bítinu á Bylgjunni að hún muni ekki fylgja Birgi eftir, heldur halda til í Miðflokknum.

Ingvar P. Guðbjörnsson formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sagði í samtali við fréttastofu að þetta hafi verið leiðrétt á heimasíðunni rétt fyrir hádegi. Aðspurður um hvernig þetta hafi komið til segir Ingvar að þetta hafi verið misskilningur, Erna eins og aðrir þurfi svo að eiga við sína samvisku hvernig hún hagi störfum sínum fyrir Alþingi.

Birgir Þórarinsson þingmaður Miðflokksins tilkynnti á laugardag að hann hefði gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Fram kom í fjölmiðlum að varaþingmaður hans Erna hefði stutt vistaskiptin. Þá svaraði Birgir því í viðtali í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun það hljóta að vera að Erna hafi skipt um skoðun vegna umræðunnar.

Erna segir að málið sé byggt á oftúlkun og misskilningi. Aðspurð um hvort það hafi komið upp að hún fylgdi Birgi segir Erna. 

„Það kom auðvitað allt til tals. Það myndast auðvitað traust milli fólks sem vinnur lengi saman. En ég verð hins vegar að fylgja minni sannfæringu,“ segir Erna

Hún segir hins vegar að hann hafi misskilið að hún hafi ætlað að fylgja honum í flokkinn.

„Ég tel að hann hafi tekið of sterkt til orða í því. Og hafi ég gefið eitthvað slíkt í skin þá er ég auðvitað frjáls kona að standa með minni sannfæringu þegar ég er búin að gefa mér tíma til að fara yfir spilin,“ segir Erna. 

Aðspurð um hvaðan misskilningurinn komi þar sem hún var boðin velkomin í Sjálfstæðisflokkinn svarar Erna:

„Hann hlýtur að vera kominn frá Birgi.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.