Innlent

Vilja að Jón Baldvin verði dæmdur í allt að þriggja mánaða fangelsi

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Dröfn Kærnested hjá embætti héraðssaksóknara.
Dröfn Kærnested hjá embætti héraðssaksóknara. vísir/vilhelm

Héraðssaksóknari leggur til að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, verði dæmdur í tveggja til þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þetta kom fram í máli hans við lok aðalmeðferðar í máli hans gegn Jóni Baldvini fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Héraðssaksóknari sagði að líta ætti til þess að Jón Baldvin væri með svo til hreint sakavottorð, fyrir utan sátt sem hann gekkst undir árið 2019 fyrir ölvunarakstur og brot á lögreglulögum, og tók nokkra fyrri dóma í svipuðum málum til hliðssónar við kröfu sína um fangelsisdóm.

Carmen Jóhannsdóttir, sem sakar Jón Baldvin um að hafa strokið rass sinn utanklæða við matarborð á heimili hans á Spáni í júní 2018, gerir þá kröfu um eina milljón frá honum í miskabætur.

Frásögnin breyst frá skýrslutöku

Við lok aðalmeðferðarinnar í dag sagði héraðssaksóknari það hafa verið sannað, svo hægt væri að hafa það yfir allan vafa, að Jón Baldvin hefði gerst sekur um þetta brot. Þar taldi hún misræmi í framburði Jóns fyrir dómnum og því sem hann sagði í skýrslutöku hjá lögreglu vega þyngst.

Framburður Jóns Baldvins í málinu breyttist í nokkrum atriðum frá því sem hann hélt fram í skýrslutöku hjá lögreglu; hann sagðist hafa setið annars staðar við borðið, taldi nú aðra hafa verið viðstadda annars vegar við matarborðið og sagði við lögreglu að Carmen hefði aldrei sest niður við borðið við lögreglu en breytti því í dag.

Jón Baldvin (hægri) og lögmaður hans Vilhjálmur H. Vilhjálmsson (vinstri) við aðalmeðferðina í dag.vísir/vilhelm

Héraðssaksóknari sagði þá að einnig hefði verið misræmi í framburði Jóns Baldvins um það hvort byrjað hefði verið að drekka þegar atvikið átti sér stað og því hvort hann hefði setið eftir á torgi nokkru fyrr um daginn áður en hópurinn fór til baka heim til að borða.

„Ákærði breytti framburði sínum um allt þetta hér fyrir dómi í dag,“ sagði saksóknarinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×