Innlent

Áskoranir í viðræðum sem taki tíma

Samúel Karl Ólason og Snorri Másson skrifa
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Vísir/Vilhelm

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir áskoranir í stjórnarmyndunarviðræðum hans, Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri grænna og Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins. Viðræðurnar muni taka minnst einhverja daga til viðbótar.

„Þetta eru ólíkir flokkar og kosningar bentu í aðrar áttir en við höfum verið að vinna á síðastliðnu kjörtímabili og það tekur tíma að snúa því,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við fréttastofu í morgun.

Hann sagði nokkuð augljóst að það þyrfti að takast á við áskoranir sem lúti að loftlagsmálum, orkumálum og fjárfestingum. Það væri ekki hægt að láta það bíða lengur.

Aðspurður um það hvort hann yrði innviðaráðherra sagði Sigurður Ingi marga bolta á lofti.

„Við erum með marga bolta á lofti. Það mun skýrast þegar og ef við náum saman um það.“ Að öðru leyti vildi hann lítið segja um hverjir fengju hvaða ráðuneyti.

Varðandi nýaukinn þingstyrk Sjálfstæðisflokksins sagðist Sigurður Ingi ekki eiga von á að það hefði áhrif á stjórnarmyndunarviðræðurnar. Hann sagðist enga skoðun hafa á þeirri ákvörðun Birgir Þórarinssonar að ganga úr Miðflokknum og í Sjálfstæðisflokkinn.

„Ég hef enga skoðun á því en það hlýtur alltaf að orka tvímælis þegar hlutir gerast svo skömmu eftir kosningar.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.