Fótbolti

Dæmdur í leikbann eftir að hafa veðjað á leiki í eigin deild

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Felipe Hernandez
Felipe Hernandez vísir/Getty

Kólumbískur leikmaður bandaríska úrvalsdeildarliðsins Sporting Kansas hefur verið dæmdur í leikbann út leiktíðina.

Sporting Kansas leikur í MLS deildinni og hefur bandaríska knattspyrnusambandið meinað Felipe Hernandez, miðjumanni liðsins, þátttöku í fótbolta þar í landi þar til leiktíðinni lýkur og má hann ekki þiggja laun frá félagi sínu.

Hernandez gerðist sekur um að veðja á leiki í MLS deildinni og hlýtur því leikbann.

Rannsókn knattspyrnusambandsins leiddi í ljós að Hernandez hefði veðjað á minnst tvo leiki í eigin deild en þó var ekki um að ræða leiki hjá hans liði.

Hernandez er 23 ára og hefur spilað fjóra leiki á yfirstandandi leiktíð. Hann kveðst haldinn spilafíkn og hefur leitað sér viðeigandi hjálpar.

MLS



Fleiri fréttir

Sjá meira


×