Innlent

Segir Klaustursskýringar Birgis ekki halda vatni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Vísir/Vilhelm

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir vistaskipti þingmannsins Birgis Þórarinssonar yfir til Sjálfstæðisflokksins vera vonbrigði. Fyrst og fremst telji hann ákvörðun Birgis ranga gagnvart því fólki sem unnið hafi að því að koma Birgi á þing í sínu kjördæmi. Hann telur skýringar Birgis um að vistaskiptin tengist Klaustursmálinu ekki halda vatni.

Þetta segir Sigmundur í samtali við mbl.is, sem náði af honum tali að loknum fundi stjórnar Miðflokksins, sem blásið var til vegna frétta dagsins. Birgir tilkynnti það í aðsendri grein í Morgunblaðinu í morgun að hann hygðist ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.

Sigmundur segir ákvörðun Birgis hafa komið sér á óvart, þótt hann hafi reyndar verið varaður við því að Birgir myndi ganga í Sjálfstæðisflokkinn. Hann hafi hins vegar neitað að trúa því, þar sem Birgir hafi lofað að standa með flokknum og hafi lagt mikið á sig til þess að verða oddviti flokksins í Suðurkjördæmi.

Birgir fari með gamlar eftiráskýringar

Sigmundur gefur lítið fyrir þá skýringu Birgis að Klaustursmálið svokallaða, sem átti sér stað í lok árs 2018, hafi haft áhrif á ákvörðunina um að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Birgir segir að samflokksfólk hans í Miðflokknum hafi ekki treyst honum í kjölfar þess að hann gagnrýndi orðræðu þeirra þingmanna sem þar áttu í hlut.

Sigmundur bendir hins vegar á að þrjú ár séu liðin frá Klaustursmálinu og að síðan þá hafi Birgi verið treyst fyrir hinum ýmsu hlutverkum innan flokksins og segir um að ræða „þriggja ára gamla eftiráskýringu sem haldi ekki alveg vatni.“

Birgir sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að hann vildi „að sjálfsögðu“ fá restina af þingflokki Miðflokksins, þá Sigmund Davíð og Bergþór Ólason, yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Sigmundur segist ekki sjá fyrir sér að það gerist í bráð, og taldi raunar áhugavert að Birgir vildi fá þá yfir, þrátt fyrir að hafa talið sig þurfa að yfirgefa Miðflokkinn.

„En við erum ekki að fara að elta hann út í þetta fen,“ sagði Sigmundur í samtali við mbl.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×