Innlent

Rýmingum ekki aflétt fyrr en búið er að verja svæðið

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Mikið tjón varð í skriðuföllunum í desember í fyrra.
Mikið tjón varð í skriðuföllunum í desember í fyrra. Vísir/Arnar Halldórsson

Ekki er útilokað að rýmingar á Seyðisfirði muni standa þar til búið er að tryggja byggðina með fullnægjandi hætti. Þá verði íbúum á svæðum sem ekki er hægt að tryggja ekki heimilað að snúa aftur heim.

Enn mælist hreyfing á hrygg á hlíðinni á Seyðisfirði milli skriðusársins sem myndaðist í desember í fyrra og Búðarár. Hryggurinn er talsvert sprunginn og talið er hugsanlegt að hann fari niður í smærri brotum en allur í einu. Unnið er að gerð nýs hættumats en það mun stýra ákvörðun sem verða teknar um framtíðarvarnir en fyrir liggur að hægt er að verja að minnsta kosti hluta svæðisins.

„Það eru skilaboð sem mig léttir við að sjá,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Múlaþings. „En það eru svæði sem við höfum ekki heimilað að flytja inn á ný vegna þess að menn treysta sér ekki til þess að gefa það út að það sé hægt að verja þau. Og þá erum við að horfa til þess að þá er ekki hægt að heimila að fólk búi þar áfram,“ bætir hann við.

Hann segir að frekari rýmingar á B og C svæðum séu vel hugsanlegar. „Það er mjög líklegt að það muni koma til rýminga á þessum svæðum, þar til hægt hefur verið að ráðast í framkvæmdir við varanlegar lausnir. Þá muni koma upp sú staða að það muni þurfa að rýma tímabundið, það er bara svo.“

Björn segir að fólk hafi tekið rýmingunum misvel, sem sé mjög skiljanlegt. „Ég skil það vel að fólk sé ekki sátt. En öryggi íbúanna er stóra málið og þess vegna er gripið til rýmingar. Ef það er einhver vafi þá rýmum við frekar en að segja „kannski er þetta í lagi“.“

Hann segir að hlutir muni skýrast eftir helgi og að haldinn verði íbúafundur um miðja viku.

„Í ljósi þess sem gerðist á sínum tíma þá verðum við að sýna fyllstu aðgát og það er það sem við erum að gera.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×