Innlent

Krafðist bóta eftir að hafa ekið á götu­sóp undir á­hrifum á­fengis og vímu­efna

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Á myndinni má sjá götusópara að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Á myndinni má sjá götusópara að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Myndin er fengin af vef Reykjavíkurborgar

Tryggingarfélagið Sjóvá lagði ökumann í dómsmáli þar sem einstaklingur krafðist skaðabóta fyrir líkamstjón sem hann varð fyrir eftir að hafa ekið aftan á götusóp í Reykjavík.

Slysið átti sér stað snemma morguns í aprílmánuði árið 2017. Jeppabifreið mannsins hafnaði aftan á götusópnum á miklum hraða og fékk bílstjóri jeppans þungt höfuðhögg og höfuðáverka. Nef hans brotnaði, hann fékk skurði og áverka á líkama auk margvíslegra heilsufarsvandamála sem rekja má til slyssins. 

Ökumaður götusópsins virðist hafa sloppið vel en í skýrslu hjá lögreglu kvaðst hann hafa ekið götusópnum á þriggja kílómetra hraða þegar ekið var aftan á hann. Hann hafi þá séð í baksýnisspeglinum þar sem jeppabifreið kom akandi á vinstra afturhornið á götusópnum. Ökumaður götusópsins sagði jeppann hafa verið „alveg í köku“ og að ökumaðurinn hafi verið alblóðugur í framan.

Landsréttur ósammála héraðsdómi

Héraðsdómur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að Sjóvá bæri að greiða ökumanninum þriðjung af fullum bótum fyrir líkamstjón. Ökumaður jeppans undi niðurstöðu héraðsdóms en tryggingarfélagið áfrýjaði til Landsréttar. Fyrir Landsrétti var ágreiningsmálið því aðeins hvort Sjóvá bæri að greiða ökumanninum þriðjung af fullum skaðabótum fyrir líkamstjón ökumannsins.

Landsréttur tekur undir sjónarmið Sjóvár og telur að slysið megi rekja til ástands ökumannsins en hann mældist með mikið magn áfengis, kókaíns og amfetamíns í blóði. Ekki hafi bent til annars en að slysið mætti rekja til en ölvunar- og vímuástands ökumanns jeppabifreiðarinnar. Hann var talinn hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með háttseminni. 

Greiðsluskylda tryggingarfélagsins féll því niður og Sjóvá þurfti þar af leiðandi ekki að greiða manninum bætur úr lögboðinni slysatryggingu ökutækisins. 

Upphaflega kom fram að ökumaður jeppabifreiðarinnar hafi krafist fullra skaðabóta fyrir líkamstjón. Hið rétta er að hann hafi farið fram á fullar bætur fyrir héraðsdómi en krafist viðurkenningar á þriðjungi skaðabóta fyrir Landsrétti. Þetta hefur nú verið leiðrétt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×