Innlent

Moderna-þegar þurfa ekki að óttast aftur í tímann

Snorri Másson skrifar
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir er staðgengill Þórólfs Guðnasonar, sem ákvað í dag að hætta notkun Moderna.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir er staðgengill Þórólfs Guðnasonar, sem ákvað í dag að hætta notkun Moderna. Vísir

Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að bóluefni Moderna gegn Covid-19 verði ekki notað hér á landi í bili. Óttast er að bólusetningin valdi aukinni tíðni hjartabólgu og gollurshússbólgu en ekki er talin ástæða til að skoða tilvik aftur í tímann.

Embætti sóttvarnalæknis byggir þessa ákvörðun á gögnum frá Norðurlöndunum sem virðast gefa til kynna marktækan mun á Moderna og öðrum bóluefnum þegar kemur að hjartabólgu og gollurshússbólgu.

„Þetta er eitthvað sem við höfum líka séð hér á Íslandi sem betur fer ekki mörg tilvik,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, sem bætir við að þetta geti verið lífshættulegar aukaverkanir. Oftar eru þær það þó ekki.

„Oft er þetta eitthvað sem gengur yfir án meðferðar með hvíld og einhverjum bólgueyðandi lyfjum en þetta er eitthvað sem þarf alltaf að taka alvarlega,“ segir Kamilla.

Ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur ef maður fékk Moderna á sínum tíma - hættan er mest fljótlega eftir bólusetningu.

„Þetta virðist vera algengast á fyrstu þremur til fjórum dögunum eftir seinni bólusetninguna en eftirlitstíminn hjá Lyfjastofnun varðandi þetta er í kringum fjórar vikur,“ segir Kamilla.

Mögulegt sé að Moderna verði í kjölfarið notað í öðrum skömmtum eða á aðra hópa en enn er beðið eftir frekari gögnum, meðal annars frá Lyfjastofnun Evrópu.

„Þetta er eitthvað sem er ekki hægt að vita fyrirfram. Það er ekki hægt að komast að þessu nema það séu bólusettir nógu margir til að mjög sjaldgæfir atburðir geti átt sér stað. Þá verður samt líka að bregðast á viðeigandi hátt við og fara varlega.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.