Innlent

Enn hreyfing á flekanum við Búðar­á

Þorgils Jónsson skrifar
Rýming er enn í gildi fram yfir helgi á Seyðisfirði. Enn mælist hreyfing í flekanum hægra megin við Búðará.
Rýming er enn í gildi fram yfir helgi á Seyðisfirði. Enn mælist hreyfing í flekanum hægra megin við Búðará.

Enn mælist hreyfing á flekanum sem liggur hægra megin við Búðará Við Seyðisfjörð, sunnan megin í skriðusárinu frá desember 2020. Rýmingar eru enn í gildi fram yfir helgi.

Á þessari mynd frá Veðurstofu Íslands sést færsla á umræddum fleka síðasta sólarhring.

Í tilkynningu frá Almannavarnarnefnd Ríkislögreglustjóra segir að flekinn hafi hreyfst sem nemur rétt rúmum 3,5 sentimetrum frá laugardegi. Engar aðrar hreyfingar hafa mælst í hlíðinni ofan Seyðisfjarðar og ekki heldur á flekanum við Stöðvarlæk, norðan skriðusársins.

Úrkomulaust er nú á Seyðisfirði en gert er ráð fyrir að fari að rigna talsvert upp úr hádegi, en það mun ganga niður í nótt.

Herðubreið verður opin milli klukkan 14 og 16 í dag og alla daga fram yfir helgi á meðan rýming varir. Íbúar í húsum á rýmingarsvæðum eru sérstaklega hvattir til að mæta.

Þeir munu þá fá aðstoð við að fara og huga að húsum sínum hafi þeir hug til þess.

Fulltrúar Rauða krossins, Múlaþings og lögreglu verða í Herðubreið. Öll velkomin. Minnt er á hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×