Innlent

Enn skráð trúnaðarmaður á innri vef og hjá Vinnueftirlitinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ólöf Helga hefur starfað sem hlaðmaður hjá Icelandair á Reykjavikurflugvelli frá 2016.
Ólöf Helga hefur starfað sem hlaðmaður hjá Icelandair á Reykjavikurflugvelli frá 2016. Af vef Eflingar

Ólöf Helga Adolfsdóttir var enn skráður bæði trúnaðarmaður og öryggistrúnaðarmaður á innri vef Icelandair þegar henni var sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Stéttarfélagið Efling ætlar í hart vegna málsins og hyggst meðal annars höfða mál fyrir dómstólum.

Fjölmiðlafulltrúi Icelandair sendi frá sér tilkynningu í gær í kjölfar fyrirspurna fjölmiðla þar sem meðal annars sagði að fyrirtækið væri ósammála „túlkun Eflingar“ og að aðila greindi á um ákveðin efnisatriði málsins, meðal annars það hvort Ólöf hefði verið trúnaðarmaður þegar til uppsagnarinnar kom.

Skjáskot sem Vísir hefur undir höndum og heimildarmaður Vísis segir hafa verið tekin eftir að Ólöfu var sagt upp, sýna hins vegar að hún var enn skráð bæði trúnaðarmaður Eflingar og öryggistrúnaðarmaður. Sem slíkur sat hún í öryggisnefnd Air Iceland Connect.

Skráð sem öryggistrúnaðarmaður hjá Vinnueftirlitinu

Í tilkynningu um málið sem Efling sendi frá sér í gær sagði að yfirmenn Ólafar hefðu haldið því fram að þeir hefðu ekki haft vitneskju um stöðu Ólafar sem trúnaðarmanns. 

Vísir hefur hins vegar undir höndum tölvupóst þar sem Ólöf er ávörpuð sem trúnaðarmaður og þá hefur Vinnueftirlitið staðfest að hún sé skráður öryggistrúnaðarmaður.

Ólöf hafi verið skráð sem slík af stjórnanda hjá Icelandair.

Efling hefur opnað heimasíðu til stuðnings Ólafar.


Tengdar fréttir

Krefjast þess að Icelandair dragi uppsögn trúnaðarmanns til baka

Forsvarsmenn Eflingar fara fram á að uppsögn hlaðmanns hjá Icelandair verði dregin til baka.Umræddur hlaðmaður, Ólöf Helga Adolfsdóttir, var trúnaðarmaður í hlaðdeild Icelandair á Reykjavíkurflugvelli og átti í viðræðum við fyrirtækið um réttindi starfsfólks þegar henni var sagt upp störfum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×