Innlent

Birgir Ármannsson verður formaður kjörbréfanefndar

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Birgir Ármannsson hefur setið í kjörbréfanefnd fjórum sinnum áður á sínum þingferli.
Birgir Ármannsson hefur setið í kjörbréfanefnd fjórum sinnum áður á sínum þingferli. vísir/vilhelm

Birgir Ármannsson var kjörinn formaður kjörbréfanefndar á fyrsta fundi undirbúningsnefndarinnar í dag. Hann hefur gegnt því hlutverki áður og hefur jafnframt langmesta reynslu allra af störfum í nefndinni.

Kastljósið verður á kjörbréfanefnd næstu vikurnar sem tekst nú á við það erfiða verkefni að finna lausn á þeirri stöðu sem er komin upp eftir endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi eftir að í ljós kom að kjörgögnin þar hefðu ekki verið innsigluð milli talninganna. 

Ein kæra er komin fyrir nefndina frá frambjóðanda Pírata og að minnsta kosti tvær aðrar á leiðinni frá frambjóðendum Samfylkingar og Viðreisnar. 

Kærufrestur til nefndarinnar er fjórar vikur frá því að hún tekur til starfa og því ljóst að hún muni taka sér allavega þann tíma til að fara yfir málin áður en hún skilar af sér tillögu til þingsins. Þingið greiðir síðan atkvæði um tillöguna. 

Nefndin er skipuð eftir þingstyrk flokka og því fá hvorki Viðreisn né Miðflokkur sæti í nefndinni heldur aðeins áheyrnarfulltrúa. 

Sjálfstæðisflokkurinn er með þrjá nefndarmenn, Birgi Ármannsson, Vilhjálm Árnason og Diljá Mist Einarsdóttur.

Framsókn er með tvo nefndarmenn, þau Líneik Önnu Sævarsdóttur og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Inga Sæland situr í nefndinni fyrir Flokk fólksins, Svandís Svavarsdóttir fyrir Vinstri græn, Björn Leví Gunnarsson fyrir Pírata og Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrir Samfylkinguna. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×