Erlent

Kanadískur ISIS-liði fer fyrir dóm í Banda­ríkjunum

Árni Sæberg skrifar
Meðlimir SDF handsömuðu Mohammed Khalifa árið 2019.
Meðlimir SDF handsömuðu Mohammed Khalifa árið 2019. Maya Alleruzzo/AP

Kanadamaðurinn Mohammed Khalifa var nýlega fluttur frá Sýrlandi til Bandaríkjanna þar sem hann verður látinn svara til sakar fyrir þáttöku sína í voðaverkum Íslamska ríkisins.

Khalifa flutti til Sýrlands árið 2013 til að ganga til liðs við samtökin Íslamska ríkið. Hann var meðal annars hluti af fjölmiðlaráðuneyti ISIS og las inn á áróðursmyndbönd samtakanna.

„Mohammed Khalifa barðist ekki einungis fyrir ISIS á vígvellinum heldur var hann einnig röddin á bak við ofbeldið“ segir Raj Parekh, settur saksóknari í Virginíufylki.

Að sögn The New York Times er hann ákærður fyrir hryðjuverk sem ollu dauðsföllum. Hann hafi verið handsamaður árið 2019 af kúrdískum hersveitum sem studdar eru af Bandaríkjunum.

Bandalag sýrlenskra Kúrda og araba hafi afhent Khalifa Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI, í vikunni sem flutti hann til Bandaríkjanna. Þar verði hann fyrsti erlendi vígamaðurinn sem dreginn verði fyrir dómstóla í valdatíð Joes Biden Bandaríkjaforseta. Hann muni koma fyrir dómara snemma í næstu viku.

Khalifa sagði í viðtali við The New York Times árið 2019 að hann hefði ekki átt neinn þátt í voðaverkum Íslamska ríkisins. „Ég var bara röddin“ sagði hann og bætti við að hann sæi ekki eftir gjörðum sínum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.