Innlent

Snarpur jarð­skjálfti fannst á höfuð­borgar­svæðinu

Eiður Þór Árnason og Þorgils Jónsson skrifa
Jarðskjálftinn fannst meðal annars vel í Reykjavík.
Jarðskjálftinn fannst meðal annars vel í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Jörð skalf á suðvesturhorninu skömmu eftir klukkan 22 og fannst skjálftinn meðal annars vel í Reykjavík, Hafnarfirði, Álftanesi og Reykjanesbæ.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var skjálftinn 3,2 af stærð og staðsettur um 0,7 kílómetrum suðsuðvestur af Keili. Mældist hann klukkan 22:10 og fannst víða á höfuðborgarsvæðinu. 

Nokkuð hefur verið um skjálftavirkni síðasta sólarhringinn en klukkan 13:54 í dag mældist skjálfti af stærð 3,5 og annar 3,7 af stærð klukkan 01:52 í nótt. Alls hafa sex skjálftar af stærð 3,0 og stærri mælst síðan skjálftahrina hófst suðvestur af Keili þann 27. september.

Gæti orsakast af kvikuhreyfingum

Ýmislegt bendir til þess að jarðskjálftar sem hafa fundist á Reykjanesi undanfarið orsakist af kvikuhreyfingum neðanjarðar. Þetta sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Á annað þúsund skjálftar fundust á Reykjanesi í dag.

„Þessi virkni er enn á meira en 5 km dýpi og ef þetta er kvika, liggur hún of djúpt til að við getum séð það með aflögunarmælingum. En við ætlum að fylgjast mjög vel með næstu dagana og sjá hvernig þetta fer,“ sagði Kristín.

Aðspurð hvort þessir skjálftar geti verið undanfari stærri skjálfta sagði hún að þessi hrina væri ólíkt staðbundnari þeirri sem var fyrir gosið í Geldingadölum. Virknin væri nú alveg nyrst í ganginum sem myndaðist í febrúar og mars.

„Það er auðvitað ekki óhugsandi að þarna geti orðið skjálftar og þarna geta skjálftar orðið allt að 6,5. Ég held að á meðan þessi virkni er í gangi megum við búast við því að finna svona einn og einn annað slagið, en við skulum vona að þeir verði ekki svona stórir, þó að auðvitað sé ekki sé hægt að útiloka það,“ sagði Kristín.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×