Innlent

Stærstu snjóflóðin féllu á Súðavík og Flateyri

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þessar myndir voru teknar í og af Súðavíkurhlíð eftir hádegið í dag.
Þessar myndir voru teknar í og af Súðavíkurhlíð eftir hádegið í dag. Viktor Einar

Töluvert af snjóflóðum féllu á norðanverðum Vestfjörðum í og eftir hríðarveðrið sem geisaði í gær. Þau stærstu sem frést hefur af féllu í nágrenni Flateyrar og í Súðavíkurhlíð.

Einnig féllu minni flóð í Skutulsfirði og Bolungarvík. Engin flóðanna ógnuðu byggð. Flateyrarvegur og vegurinn um Súðavíkurhlíð voru lokaðir á meðan á veðrinu stóð.

Greint er frá snjóflóðatíðindum á vef Veðurstofu Íslands.

Þar segir að í Önundarfirði hafi fallið þónokkur snjóflóð, meðal annars úr Innra-Bæjargili og Skollahvilft ofan Flateyrar. Flóðið úr Innra-Bæjargili fór á efsta hluta varnargarðs og rann smá spöl niður með honum en var þó langt frá því að fara yfir hann.

Flóðið á Flateyri féll úr Innra-Bæjargili.STEINUNN G. EINARSDÓTTIR

Flóðið úr Skollahvilft náði ekki að varnargarði. Nokkur flóð féllu ofan við Flateyrarveg en engin náðu út á veg. Tvö snjóflóð féllu yfir veginn um Súðavíkurhlíð, úr farvegum sem oft falla flóð úr.

Í gær fréttist einnig af nokkrum snjóflóðum í nágrenni Dalvíkur og í Hörgárdal. Þau munu ekki hafa ógnað byggð eða vegum.

Veðrið er nú gengið yfir, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar. Það hefur stytt upp, dregið úr vindi og hlýnað. Hættan á náttúrulegum flóðum er talin að mestu yfirstaðin. Enn þá er þó mögulegt að fólk á ferð í brattlendi setji af stað snjóflóð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.