Innlent

Skjálftahrina við Keili síðastliðinn sólarhring með rætur skammt frá gígnum

Eiður Þór Árnason skrifar
Nokkur skjálftavirkni hefur verið á svæðinu. 
Nokkur skjálftavirkni hefur verið á svæðinu.  Veðurstofa Íslands

Rúmlega hundrað skjálftar hafa verið mælst við Keili síðasta sólarhringinn í skjálftahrinu sem hófst seinni partinn í gær. Stærstu skjálftarnir voru 2,5 að stærð en dregið hefur talsvert úr virkninni eftir hádegi í dag.

„Það hefur verið dálítil virkni þarna rétt fyrir gos og hefur verið síðustu mánuði en þetta er vissulega smá hrina sem kemur aukalega,“ segir Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Skjálftarnir hafa flestir verið á um sex til átta kílómetra dýpi. Hulda segir að þeir tveir stærstu hafi annars vegar mælst rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi og hins vegar rétt fyrir sjö í morgun.

„Þetta byrjaði seinnipartinn í gær og var í nótt og í morgun og svo hefur þetta róast aðeins svo það er svosem ekki mikið að frétta af þessu svæði núna.“

Ekki sé hægt að útiloka að kvika sé þarna að brjóta sér leið á nýjum stað en umræddir skjálftar eiga rætur um fimm til sjö kílómetra frá gígnum í Geldingadölum.

Hulda segir að engin gögn bendi þó til þess að einhver þensla sé í gangi á svæðinu. Of snemmt sé að segja til um hvaða þróun sé að eiga sér stað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.