Innlent

„Ekki gott fyrir Ís­land að það komi svona fréttir af okkur“

Atli Ísleifsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi við fréttastofu um fréttir heimspressunar af hlutfalli kvenna á Alþingi að loknum fundi leiðtoga stjórnarflokkanna í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu í gær.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi við fréttastofu um fréttir heimspressunar af hlutfalli kvenna á Alþingi að loknum fundi leiðtoga stjórnarflokkanna í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu í gær. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það ekki gott fyrir Ísland að fjöldi erlendra fjölmiðla hafi flutt fréttir af þingmeirihluta kvenna skömmu áður en endurtalning breytti óvænt stöðunni með áberandi hætti.

Þegar meintar lokatölur alþingiskosninganna lágu fyrir á sunnudagsmorgun fögnuðu því margir að 33 konur yrðu á nýju þingi á móti þrjátíu körlum. Hefði þetta verið í fyrsta sinn í Íslandssögunni sem konur yrðu í meirihluta og er sú staða sömuleiðis sjaldséð á heimssviðinu. Hefði það þannig verið í fyrsta sinn í sögu Evrópu.

Erlendir miðlar á borði við BBC, Guardian og Reuters, hafa birt leiðréttingarfréttir í kjölfarið.

Katrín segist hafa farið í eitt viðtal við erlendan fjölmiðil vegna málsins. „Ég held ég hafi bara lent í einu viðtali vegna þessa, kannski sem betur fer ekki fleirum því þetta er auðvitað alls ekki gott. Það er auðvitað ekki gott fyrir Ísland að það komi svona fréttir komi af okkur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir að loknum fundi hennar og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, í Stjórnarráðshússins í gær.

„Það sem máli skiptir er ekki endilega fréttaflutningurinn heldur að málið verði upplýst og komist til botns í því sem fyrst og það eru allir að vinna að því,“ sagði Katrín í samtali við fréttastofu.

Hún segir að engu að síður sé hlutur kvenna á nýju Alþingi mjög stór. „Já, hann er mjög góður, þannig að við getum alveg fagnað því þó þær hafi ekki endað í meirihluta, eins og staðan er núna, maður þorir ekki að segja annað,“ segir Katrín.


Tengdar fréttir

Heims­pressan fjallar um sögu­legan sigur kvenna í kosningunum

Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um Alþingiskosningarnar þar sem sérstaklega hefur verið einblínt á þá staðreynd að konur verði í fyrsta sinn í meirihluta á þingi. Með þessu verður Ísland fyrsta landið í sögu Evrópu til að verða með lýðræðislega kjörið þing þar sem konur eru í meirihluta.

Konur ekki lengur í meiri­hluta á Alþingi eftir endur­talningu

Þegar lokatölur úr öllum kjördæmum í Alþingiskosningunum lágu fyrir í morgun var útlit fyrir að konur yrðu í meirihluta á Alþingi, í fyrsta sinn í sögunni. Eftir að endurtalning í Norðvesturkjördæmi breytti röðun jöfnunarþingmanna er sá meirihluti hins vegar að engu orðinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.