Innlent

Konur ekki lengur í meiri­hluta á Alþingi eftir endur­talningu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þær Hólmfríður, Lenya og Rósa Björk detta út vegna breytinganna.
Þær Hólmfríður, Lenya og Rósa Björk detta út vegna breytinganna.

Þegar lokatölur úr öllum kjördæmum í Alþingiskosningunum lágu fyrir í morgun var útlit fyrir að konur yrðu í meirihluta á Alþingi, í fyrsta sinn í sögunni. Eftir að endurtalning í Norðvesturkjördæmi breytti röðun jöfnunarþingmanna er sá meirihluti hins vegar að engu orðinn.

Í kjördæminu höfðu atkvæði Viðreisnar verið oftalin um níu og atkvæði Miðflokksins um fimm. Þetta veldur því að fimm frambjóðendur, sem útlit var fyrir í morgun að yrðu þingmenn, detta út og aðrir fimm koma inn.

Af þeim fimm sem detta út eru þrjár konur, og í þeirra stað koma þrír karlar. Fyrir þá tvo karlmenn sem detta út af þingi koma aðrir karlmenn inn. Í dag var útlit fyrir að konur á þingi yrðu 33 á móti 30 körlum. Nú hefur hlutfallið hins vegar snúist við, og á þingi taka sæti 33 karlar og 30 konur.

Þetta hefði verið í fyrsta skipti í sögu Evrópu sem konur eru fleiri en karlar á lýðræðiskjörnu þingi.

Konurnar þrjár sem detta út eru Hólmfríður Árnadóttir fyrir VG í Suðurkjördæmi, Lenya Rún Taha Karim fyrir Pírata í Reykjavík norður og Rósa Björk Brynjólfsdóttir fyrir Samfylkingu í Reykjavík suður.

Hér að neðan má sjá hreyfingar á jöfnunarsætum eftir endurtalninguna í Norðausturkjördæmi:

Guðmundur Gunnarsson fellur út sem jöfnunarmaður Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi og í stað hans kemur Bergþór Ólason inn fyrir Miðflokkinn.

Í Reykjavík norður fellur Lenya Rún Taha Karim út sem jöfnunarmaður Pírata og í hennar stað kemur Jóhann Páll Jóhannsson fyrir Samfylkinguna.

Og þá dettur Rósa Björk Brynjólfsdóttir út sem jöfnunarmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík Suður. Í hennar stað kemur Orri Páll Jóhannsson sem jöfnunarþingmaður Vinstri grænna.

Í Suðurkjördæmi dettur Hólmfríður Árnadóttir út sem jöfnunarþingmaður Vinstri grænna og Guðbrandur Einarsson kemur inn í hennar stað sem jöfnunarþingmaður Viðreisnar.

Karl Gauti Hjaltason dettur þá út sem jöfnunarmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi en það sæti tekur Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata.


Tengdar fréttir

Heims­pressan fjallar um sögu­legan sigur kvenna í kosningunum

Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um Alþingiskosningarnar þar sem sérstaklega hefur verið einblínt á þá staðreynd að konur verði í fyrsta sinn í meirihluta á þingi. Með þessu verður Ísland fyrsta landið í sögu Evrópu til að verða með lýðræðislega kjörið þing þar sem konur eru í meirihluta.

Konur í fyrsta sinn í meirihluta á þingi í Evrópu

Konur eru nú í fyrsta sinn í sögunni í meirihluta á Alþingi Íslendinga. 33 konur voru kjörnar á þing í gær og 30 karlmaður. Í kosningunum 2017 voru 24 konur kjörnar á þing. Þetta er í fyrsta skipti í sögu Evrópu sem konur eru fleiri en karlar á lýðræðiskjörnu þingi. Svíar höfðu áður komist næst því með 47 prósenta hlut kvenna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.