Innlent

Funda í vikunni um mögu­lega sam­einingu fjögurra

Atli Ísleifsson skrifar
Anton Kári Halldórsson formaður samstarfsnefndar og sveitarstjóri Rangárþings eystra.
Anton Kári Halldórsson formaður samstarfsnefndar og sveitarstjóri Rangárþings eystra. Stöð 2

Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaga á Suðurlandi mun funda um næstu skref síðar í vikunni eftir að tillaga um sameiningu Ásahrepps, Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings ytra og Rangárþings eystra var felld í Ásahreppi.

Þetta segir Anton Kári Halldórsson formaður samstarfsnefndar og sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Í tilkynningu er haft eftir Antoni Kára að meirihluti kjósenda í fjórum af fimm sveitarfélögum samþykkir því að sveitarfélögin sameinist. „Einn valmöguleikinn hlýtur að vera að kosið verði aftur í þeim fjórum sveitarfélögum sem samþykktu og kannað hvort íbúar vilji að sameiningin gangi í gegn. Það gæti gerst tiltölulega hratt, til dæmis í desember eða janúar,“ segir Anton Kári.

Einfaldur meirihluti ræður

Um áttatíu prósent kjósenda í Ásahreppi greiddu atkvæði gegn sameiningunni, en þegar kosið er um sameiningu sveitarfélaga ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða niðurstöðunni í hverju sveitarfélagi og er hún bindandi fyrir sveitarstjórn.

Í tilkynningu frá samstarfsnefndinni segir að ef tillögu er hafnað í einhverju sveitarfélaganna, líkt og gerðist í Ásahreppi er málinu þar með lokið fyrir íbúa þess sveitarfélags.

„Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga, þar sem tillagan er samþykkt, heimilt að ákveða að sameinast án þeirra sveitarfélaga þar sem tillögunni er hafnað. Skilyrði er að tillagan hafi verið samþykkt í að lágmarki 2/3 hluta þeirra sveitarfélaga sem tillagan varðar og að í þeim sveitarfélögum búi að minnsta kosti 2/3 hlutar íbúa sveitarfélaganna. Bæði skilyrði eru uppfyllt í þessu tilfelli, en sveitarstjórnirnar fimm höfðu lýst því yfir fyrir kosningar að þær myndu ekki nýta þessa heimild. Vilji sveitarstjórirnar skoða aðra sameiningarkosti þarf því að koma fram ný tillaga eða tillögur um sameiningarviðræður og gefa íbúum tækifæri til að kjósa að nýju,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×